Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Byrjaði hjá bílaleigunni fyrir 37 árum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Bergþór Karlsson stýrir daglegum rekstri Bílaleigu Akureyrar og situr einnig í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF).
Bergþór Karlsson stýrir daglegum rekstri Bílaleigu Akureyrar og situr einnig í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF). Vísir/GVA
„Ég byrjaði að vinna hjá fyrirtækinu fjórtán ára gamall árið 1977 og þekki því ekkert annað en þetta,“ segir Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri og einn af eigendum Bílaleigu Akureyrar.

Hann og nokkrir aðrir lykilstarfsmenn fyrirtækisins keyptu Höld ehf., sem rekur Bílaleigu Akureyrar, árið 2003. Fyrirtækið er með um 3.000 bíla í rekstri og 200 manns í vinnu yfir sumartímann.

„Ég byrjaði á sínum tíma á því að dæla bensíni og svoleiðis norður á Akureyri og þrífa bíla í Reykjavík um helgar. Þá var túristabransinn í borginni svo lítill að aðalbisnessinn um helgar snérist í kringum leiguflug frá Þýskalandi og eitthvað svoleiðis. Þá var mikið að gera í þrjá daga og svo biðu menn eftir næstu helgi,“ segir Bergþór.

Hann lauk stúdentsprófi frá frumgreina- og raungreinadeild Iðnskólans á Akureyri árið 1980 og lærði síðan til stúdentsprófs í Fjölbraut í Breiðholti árið 1983. Hann hefur einnig setið ýmis endurmenntunarnámskeið sem tengjast starfinu.

„Mín þekking og kunnátta byggist mikið á samskiptum mínum við fyrrverandi eigendur fyrirtækisins, þá Vilhelm, Birgi, Skúla og Baldur Ágústssyni sem áttu fyrirtækið og voru kallaðir Kennedy-bræðurnir. Ég lærði mikið af þeim.“

Bergþór segir sumarið hafa gengið vel og bókanir vera í takt við áætlanir. Á næstu mánuðum þurfa starfsmenn fyrirtækisins að koma um þriðjungi flotans í sölu og fleiri hundruð bílum í geymslu.

„Við verðum að því fram í október og það er mikil vinna framundan í sölu á bílum og markaðsstarfi fyrir næsta ár. Svo þurfum við að endurnýja flotann fyrir næsta ár en það þarf að taka endanlega ákvörðun um endurnýjun hans í síðasta lagi í byrjun desember,“ segir Bergþór. Hann bætir við að fyrirtækið selji á hverju ári um 800-1.000 notaða fólksbíla og kaupi annað eins af nýjum bílum. Á síðasta ári keypti Bílaleiga Akureyrar um fjórtán prósent af heildarsölu nýrra fólksbíla.

„Það er svolítið föndur að þurfa að ákveða og skuldbinda sig fyrir áramót þegar maður veit ekki hvað á eftir að gerast varðandi hluti eins og verkföll, eldgos eða yfirhöfuð hvernig gengur að selja landið. Maður verður bara að ganga út frá því að þetta gangi allt vel,“ segir Bergþór.

Spurður um áhugamál nefnir Bergþór bæði golf og ferðalög. Einnig nefnir hann fjölskylduna en hann er giftur Báru Kristjánsdóttir ljósmyndara. Þau eiga tvær dætur og eitt barnabarn.

„Ég byrjaði í golfi sem krakki. Það hentar þó ekki alltaf þessari vinnu sem snýst mikið um bissness á sumrin. Golfið er skemmtilegt og svo reynir maður að fara norður á skíði á veturna og til útlanda að elta sólina.“

Steingrímur Birgisson
Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds ehf. - Bílaleigu Akureyrar

„Beggi er búinn að vinna hjá Bílaleigu Akureyrar í um það bil 37 ár, og er þó bara rétt liðlega fimmtugur. Hann var rétt um fermingu þegar hann hóf störf hjá fyrirtækinu og er tvímælalaust mesti reynsluboltinn í bransanum í dag enda marga fjöruna sopið á þessum árum og hann á klárlega mikinn þátt í því fyrirtæki sem Höldur er orðinn í dag.

Það er frábært að vinna með Begga, hann er afskaplega ljúfur og þægilegur í umgengni, og heldur ró sinni sama á hverju gengur. Það er helst að maður merki stress hjá kappanum þegar hann fer að humma nokkuð hátt og lengi, þá er álagið orðið ansi mikið. Við höfum unnið afar náið saman í um 25 ár og aldrei hefur borið skugga á það samstarf né okkur orðið sundurorða, sem segir allt um kallinn.“

Erna Hauksdóttir
Erna Hauksdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

„Bergþór hefur í mörg ár verið einn af virkustu félagsmönnum Samtaka ferðaþjónustunnar bæði sem stjórnarmaður og formaður bílaleigunefndar. Hann hefur verð öflugur talsmaður bílaleiganna og átt ríkan þátt í þeirri geysihröðu þróun sem verið hefur í þeirri grein.

Innan stjórnar hefur hann ennfremur verð áhugasamur og dugmikill við að vinna að fjölbreyttum málum sem varða ferðaþjónustuna í heild en verkefnin hafa verið óþrjótandi og þá er gott að hafa traust fólk sem hefur góða þekkingu á greininni. Auk þess er Beggi skemmtilegur og góður félagi sem gaman er að umgangast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×