Erlent

Svíar viðurkenna sjálfstæði ríkis Palestínumanna í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Svíþjóðar hyggst viðurkenna sjálfstæði ríkis Palestínumanna síðar í dag. Margot Wallström utanríkisráðherra tilkynnti um ákvörðunina í aðsendri grein í Dagens Nyheter í morgun.

Wallström segir að þjóðréttarleg skilyrði viðurkenningarinnar séu þegar uppfyllt, þrátt fyrir að Palestína ráði ekki yfir landsvæði með skilgreindum landamærum.

Tilkynningin hefur vakið mikla athygli bæði í Ísrael og Palestínu. Samir Abu Eid, fréttaritari sænska ríkissjónvarpsins á Gasa, segir að auk þeirrar gleði sem Palestínumenn finni til, þá blandist hún óskum um efnislega aðstoð.

„Meðal Palestínumanna á Gasa  og Vesturbakkanum má skynja mikla gleði. Þetta vekur von, sem er meðal þess sem Svíar vilja,“ segir Eid. „Samtímis verður maður að muna að Ísraelar eru mjög gagnrýnir á ákvörðunina. Þeir líta svo á að viðurkenningin komi of snemma og að fyrst sé nauðsynlegt að ná samkomulagi um varanlegan frið. Viðbrögðin þaðan eru að þeir undrast að þetta hafi gengið svo hratt fyrir sig.“

Eid segir að ákvörðun sænsku ríkisstjórnarinnar muni ekki hafa neinar áþreifanlegar afleiðingar fyrir íbúa Palestínu á næstu misserum. Eid greinir frá því að margir hefðu frekar þegið annars konar aðstoð. „Margir vilja meina að við þurfum áþreifanlega hjálp. Aðstæðurnar munu ekki breytast vegna ákvörðunarinnar. Svíþjóð vill koma friðarviðræðum aftur á skrið, en hér á Gasa má finna fyrir mikilli gremju og vonleysi. Mögulega getur þetta gefið von um betri framtíð innan fjögurra, fimm eða tíu ára.“

Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×