Fótbolti

Sverrir Ingi orðinn leikmaður Granada

Sverrir Ingi Ingason í leik með Lokeren í Belgíu.
Sverrir Ingi Ingason í leik með Lokeren í Belgíu. Vísir/Getty
Sverirr Ingi Ingason er orðinn leikmaður Granada á Spáni og hefur samið við liðið til loka tímabilsins 2020.

Talið er að kaupverðið sé tæpar tvær milljónir evra, um 230 milljónir króna en það hefur ekki fengist staðfest.

Miðverðinum Sverri Inga er ætlað að styrkja varnarleik liðsins. Granada er í næstneðsta sæti deildarinnar með tíu stig og hefur fengið á sig 39 mörk, flest allra í deildinni.

Sverrir Ingi er 23 ára og uppalinn hjá Breiðabliki. Hann samdi við Viking fyrir tímabilið 2014 en fór ári síðar í Lokeren í Belgíu. Þar hefur hann verið fastamaður í vörn Lokeren, en þjálfari liðsins er Rúnar Kristinsson.

Hann verður sjötti íslenski leikmaðurinn sem spilar í spænsku 1. deildinni. Hinir eru Pétur Pétursson (Hercules, 1985-86), Þórður Guðjónsson (Las Palmas, 2000-1), Jóhannes Karl Guðjónsson (Real Betis, 2001-3), Eiður Smári Guðjohnsen (Barcelona, 2006-9) og Alfreð Finnbogason (Real Sociedad 2014-15).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×