Innlent

Svavar Gestsson ætlar líka að sitja heima

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Svavar Gestsson situr heima.
Svavar Gestsson situr heima.

Svavar Gestsson, sem stýrði samninganefnd um Icesave, hyggst ekki greiða atkvæði um eigin samning í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Aðstoðarmaður hans ætlar einnig að sitja heima þar sem forsendur séu breyttar og á borðinu liggi fyrir tilboð um betri samning.

Svavar Gestsson sem var formaður íslensku samninganefndarinnar vegna Icesave-samninganna ætlar eftir því sem fréttastofa kemst næst að greiða ekki atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag. Huginn Freyr Þorsteinsson, sem var aðstoðarmaður Svavars í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga, sagðist í samtali við fréttastofu einnig ætla að sitja heima, enda lægi fyrir tilboð um betri samning en þann sem greidd væru atkvæði um í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Huginn sagði í samtali við fréttastofu að markmið samninganefndarinnar frá síðasta ári hafi alltaf verið að ná sem bestri niðurstöðu fyrir Ísland. Sá samningur sem hafi náðst við Breta og Hollendinga í fyrra hafi verið sá besti sem hægt var að ná á þeim tímapunkti. Huginn sagði að nú væru forsendur breyttar og af fréttum af dæma hefði núverandi samninganefnd staðið sig afskaplega vel.

Huginn sagði jafnframt að það væri sérstök ástæða til að fagna samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu við því að koma þessu ömurlega máli út úr heiminum, eins og hann orðaði það.

Eins og komið hefur fram hyggjast bæði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sitja heima í dag og greiða ekki atkvæði. Afstaða annarra ráðherra er óþekkt, en ekki hefur náðst varaformenn stjórnarflokkanna. Þá hefur Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ekki svarað skilaboðum fréttastofu.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×