Fótbolti

Styttist í heimkomu hjá Ólafi Inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Ingi gæti verið á heimleið.
Ólafur Ingi gæti verið á heimleið. vísir/getty
Talsverðar líkur eru á því að miðjumaðurinn Ólafur Ingi Skúlason leiki á Íslandi næsta sumar. 433.is greinir frá.

Ólafur gerði tveggja ára samning við tyrkneska liðið Karabükspor í sumar en hann er með ákvæði í samningi sínum sem gerir honum kleift að koma heim, kjósi hann að gera það.

Í frétt 433.is kemur fram að fjölskylda Ólafs sé flutt til Íslands og það styttist í heimkomu hjá honum.

„Það er ekki alveg hægt að fara beint út í þetta núna, ég er með tveggja ára samning hérna. Ég hef hug á því að spila heima þegar ég kem,“ sagði Ólafur í samtali við 433.is.

„Það verður bara koma í ljós hvort ég komi heim fyrir næsta sumar, það getur allt gerst. Hugurinn leitar heim, fjölskyldan er heima og það er því ekki ólíklegt að ég komi líka.“

Ólafur er Fylkismaður en uppeldisfélag hans er sem stendur í fallsæti í Pepsi-deildinni.

Ólafur var í fjögur ár á mála hjá Arsenal en lék aðeins einn leik með aðalliði félagsins. Hann hefur einnig leikið með Brentford, Helsingborg, SönderjyskE, Zulte Waregem og Genclerbirgligi á ferli sínum í atvinnumennsku.

Ólafur hefur leikið 26 A-landsleiki fyrir Ísland en hann komst ekki í lokahópinn fyrir EM 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×