Innlent

Styrmir og Þórhildur í nýjum þætti á RÚV

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bogi Ágústsson, Styrmir Gunnarsson og Þórhildur Þorleifsdóttir stjórna nýjum umræðuþætti á RÚV.
Bogi Ágústsson, Styrmir Gunnarsson og Þórhildur Þorleifsdóttir stjórna nýjum umræðuþætti á RÚV.
Hringborðið er nýr umræðuþáttur sem senn hefur göngu sína á RÚV þar sem þjóðmálaumræðan verður skoðuð í stærra samhengi með hliðsjón af samhengi sögunnar og reynslunnar.

Umsjónarmenn þáttarins verða Bogi Ágústsson, fréttamaður og fyrrverandi fréttastjóri, Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, og Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi þingmaður og leikhússtjóri Borgarleikhússins.

Hringborðið verður mánaðarlega á dagskrá RÚV, fyrsta mánudag hvers mánaðar á eftir tíu fréttum, og munu umsjónarmenn kalla til sín viðmælendur sem koma til að eiga það sameiginlegt að búa yfir yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu og hafa þar af leiðandi vel ígrundaða og sterka innsýn í þau málefni sem hvað hæst brenna á þjóðinni hverju sinni eða þarfnast frekari skoðunar.

„Hringborðið á að vera uppbyggilegur umræðuþáttur þar sem fólk með víðtæka reynslu og þekkingu á íslensku samfélagi ræðir málefni líðandi stundar. Umsjónarmennirnir eiga það sameiginlegt að hafa mikla yfirsýn og muna tímana tvenna. Við vonumst til að þátturinn muni setja málefni dagsins í dag í stærra samhengi og skauta hjá því argaþrasi sem einkennir umræðuna oft og tíðum. Okkur hefur stundum þótt skorta nokkuð á að raddir hinna reynslumeiri heyrist nægjanlega oft í íslenskum fjölmiðlum en við teljum að með þessu séum við að vissu leyti að bæta úr því. Ég á því von á litríkum og uppbyggilegum umræðuþætti þar sem tekist verður á af miklu krafti um þau málefni sem skipta þjóðina öllu máli, í dag og ekki síst til framtíðar litið,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×