Lífið

Sturla Atlas - Herja á önnur skynfæri en eyrun

Stefán Þór Hjartarson skrifar
101 boys eru alltaf að leita á ný mið þegar kemur að útgáfumálum.
101 boys eru alltaf að leita á ný mið þegar kemur að útgáfumálum. Vísir/Anton Brink
101 nights er ilmur sem við vinnum í samvinnu við Sigga Odds, en jafnframt er 101 nights eina efnislega útgáfa samnefndrar plötu sem við gáfum út í síðustu viku. Plötuumslagið er mynd af krukkunni sem ilmurinn fæst í og vonin er sú að ilmurinn muni kalla fram sömu áhrif og fæst við hlustun á plötuna,“ segir Jóhann Kristófer Stefánsson, einn af 101 boys, en þeir gefa nú út ilminn 101 nights og verður hann frumsýndur, eða frumþefaður, í versluninni Húrra Reykjavík næsta föstudagskvöld. Eins og Jóhann segir er ilmurinn eina efnislega útgáfan, en platan datt strax inn á Spotify og fæst til niðurhals á vefsíðunni sturlaatlas.com.

Af hverju völduð þið að framleiða ilm?

„Okkur fannst 101 nights hljóma eins og nafn á ilmi og því var ekkert annað í stöðunni en að gera það að veruleika. Með því að búa til ilm fáum við tækifæri til að miða inn á ný skynfæri sem er mjög skemmtilegt og frekar sjaldgæft fyrir okkur sem listamenn.“

Geturðu lýst lyktinni fyrir mér?

„Sjálfri lyktinni er erfitt að lýsa og ég býst við að hún eigi eftir að kalla fram mismunandi áhrif hjá hverjum og einum. Ef ég tala fyrir sjálfan mig minnir lyktin mig bæði á að vera 13 ára í fótbolta í Austó í glampandi sól sem og að labba heim af Prikinu seint um kvöld í vetrarkuldanum, mörgum árum síðar. En lyktin hefur einnig kallað fram mjög sölt viðbrögð frá mörgum.“

Hér má sjá ilminn á þessari ákaflegu ilmvatnslegu auglýsingu.
Hvernig var ferlið að fá svona ilm? Hverjir koma að framleiðsluhliðinni? 

„Það byrjar bara með að hugmyndin fæðist og í kjölfarið reynum við að kjarna hvað það er sem við viljum að lyktin dragi fram. Um framleiðsluna sér Jurtaapótekið en Anna Lalla Patay sem starfar þar náði fram lykt sem við tengdum allir við mjög snemma. Eftir smá þróun varð svo til ilmurinn sem 101 nights er.“

Er þetta takmarkað magn eða eruð þið jafnvel að fara að leggjast í ilmvatnsframleiðslu? 

„Seint mætti segja að verkefni af þessu tagi væri mjög arðbært og því verður ilmurinn í mjög takmörkuðu upplagi. En það er ekkert nema forvitnin og driftin við að prófa nýja hluti sem gerir það að verkum að við ráðumst í verkefni af þessu tagi og trúum ekki öðru en að það skili sér í vörunni,“ segir Jóhann Kristófer að lokum en eins og áður sagði verður hægt að „berja ilminn nefi“ á föstudaginn klukkan fimm í verslun Húrra Reykjavík að Hverfisgötu 78, sem sagt kvenfataverslun Húrra, og einnig verður hægt að kaupa sér eitt stykki og lykta eins og æskuminningar Jóhanns, já, eða gönguferð heim af Prikinu.

Á Twitter fór af stað mikil Photoshop samkeppni í kjölfar þess að Logi Pedro auglýsti útgáfu ilmsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×