Innlent

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst

Stefán Ó. Jónsson skrifar
42 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina.
42 prósent kjósenda styðja ríkisstjórnina.
Litlar breytingar eru á fylgi flokka milli mánaða. Helstu breytingar eru þær að fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um rúm tvö prósentustig, en tæplega 28 prósent segjast myndu kjósa flokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag ef marka má skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 26. júní til 28. júlí.

Þá eykst stuðningur við ríkisstjórnina um tvö prósentustig milli mánaða, en nær 42 prósent þeirra sem tóku afstöðu segjast styðja hana.

Fylgi annarra flokka breytist á lítið sem ekkert, eða á bilinu 0 til hálft prósentustig á milli kannanna. Rúmlega 18 prósent segjast myndu kjósa Samfylkinguna, liðlega 15 prósent Bjarta framtíð og rúmlega 13 prósent Framsóknarflokkinn.

Nær 13 prósent kjósenda myndu ljá Vinstrihreyfingunni - grænt framboð atkvæði sitt, tæplega 8 pósent segjast myndu kjósa Pírata og tæplega 6 prósent myndu kjósa aðra flokka en nú eiga sæti á Alþingi.

Liðlega 9 prósent segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag og 13 prósent taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.

Þróun fylgis stjórnmálaflokka frá kosningum árið 2013.MYND/CAPACENT
Aðferðafræði: 

Heildarúrtaksstærð var 5.692 og þátttökuhlutfall var 57,9 prósent. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,9-1,7 prósent. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup.

Spurt var:

  • Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?
  • En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?
  • Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?
  • Styður þú ríkisstjórnina?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×