Skoðun

Stúdentspróf – fjölbreytni í fyrirrúmi

Lárus H. Bjarnason skrifar
Í samræmi við stefnu menntamálayfirvalda hafa velflestir framhaldsskólar endurskipulagt námsbrautir með það fyrir augum að innrita nemendur á þriggja ára stúdentsbrautir þegar í haust. Í þremur menntaskólanna, þ.e. MA, MH og MR, er þó farið hægar í sakirnar og boðið upp á fjögurra ára stúdentspróf enn um sinn. Stúdentspróf á þremur árum er reyndar engin nýlunda í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Allt frá árinu 1974 hefur nokkur hópur stúdenta brautskráðst árlega eftir þriggja ára nám og frá aldamótum hefur skólinn boðið þriggja ára nám til alþjóðlegs stúdentsprófs. Þessu til viðbótar verður í haust boðið upp á nýja þriggja ára braut samhliða lengri brautunum, sérstaka hraðferðarútgáfu af opinni braut með einkar sveigjanlegu skipulagi.

Sveigjanleiki áfangakerfis

Möguleikinn á að ljúka hefðbundnu stúdentsprófi á þremur árum í MH helst í hendur við áfangakerfið en með innleiðingu þess gafst dugmiklum nemendum kostur á að þjappa náminu á styttri tíma þótt námseiningar þriggja ára stúdentanna væri engu færri en hinna. Einn meginkostur áfangakerfisins er einmitt sveigjanleikinn sem nemendur njóta við skipulag námsins. Þrátt fyrir langvarandi fjárþröng framhaldsskólanna hefur lánast, einkum í krafti stærðarinnar, að viðhalda og jafnvel auka fjölbreytni og möguleika til einstaklingsbundins náms í MH. Eitt helsta leiðarljós skólans er að virða ólíkar þarfir einstaklinga og ganga út frá vilja nemenda til að axla ábyrgð. Áhersla hefur verið lögð á fjölbreytni og kappkostað að kynna nemendum vinnubrögð sem tíðkast í háskólanámi. Algengt er að nemendur taki töluvert af einingum umfram áskilið lágmark, ýmist til þess að kynnast sem flestum námsgreinum eða til þess að dýpka undirbúning í völdum greinum með tilliti til áforma í háskólanámi.

Meðal nýbreytni síðustu ára í MH er svokölluð opin braut til stúdentsprófs og er nemandi á henni óbundinn af áherslum sem birtast í algengum brautaheitum á borð við félagsfræðabraut, málabraut og náttúrufræðibraut. Nemandi á opinni braut velur sér þrjár til fjórar kjörgreinar og leggur sérstaka áherslu á nám í þeim. Krafan er að ákveðinni dýpt sé náð með keðju áfanga í kjörgreinunum en ekki er þörf á að þær séu innbyrðis tengdar.

Til dæmis gætu kjörgreinar eins nemanda verið stærðfræði, eðlisfræði, saga og spænska, annar gæti verið með íslensku, sálfræði heimspeki og leiklist og sá þriðji með tónlist, ensku og líffræði. Svo vill til að á þessu vori brautskrást fyrstu stúdentar opnu brautarinnar og þar sýnir sig einmitt að samsetning kjörgreina er jafn ólík og nemendurnir sem þó eiga það sammerkt að hafa náð að ljúka náminu á þremur árum.

Háskólaundirbúningur

Lágmarkseiningafjöldi til stúdentsprófs í MH hefur sem fyrr segir verið einn og hinn sami hvort sem sem fólk hefur kosið að skipa náminu á lengri eða skemmri tíma. Óraunhæft er að ætla, hvað sem góðu skipulagi líður, að þorri nemenda ráði við að ljúka stúdentsprófi á þremur árum nema innihald þess verði skert töluvert frá því sem verið hefur. Tölfræði um árangur fyrsta árs háskólanema bendir til þess að stór hópur þeirra hefji námið án fullnægjandi undirbúnings, enda fjölgar nú háskóladeildum sem beita aðgangsprófum til að skera úr um hæfni umsækjenda. Við þessar aðstæður þarf engan að undra að skólar sem vilja standa vörð um stúdentsprófið sem aðgöngumiða að háskólum hiki við uppstokkun sem veikir meginstoðir þess.

Í Menntaskólanum við Hamrahlíð var því ákveðið að fyrstu skrefin í styttingarátt yrðu varkár og fælust annars vegar í því að endurskipuleggja hraðferðaráfanga hjá þeim sem koma best undirbúnir úr grunnskóla og hins vegar að heimila fækkun áfanga í frjálsu vali á opnu brautinni. Vegna kjörgreinafyrirkomulagsins er í reynd ekkert sem hindrar nemanda í að sveigja nám sitt á opinni braut í átt að áherslu einhverra hinna brautanna og búa sig undir nám í verkfræði, læknisfræði, lögfræði, hagfræði, tungumálum eða sálfræði svo fátt eitt sé talið.

Eftir sem áður standa allar óstyttu brautirnar til boða svo að úr nægu er að velja fyrir nýja MH-inga í haust. Allt hefur sér til ágætis nokkuð og verður fróðlegt að fylgjast með nemendum sem eiga þess kost að velja milli fjögurra ára náms, þriggja ára leiðar með auknu álagi eða jafnvel fara milliveginn og stefna á þrjú og hálft ár. Verði áfram spurn eftir hinu viðameira stúdentsprófi leyfi ég mér að vona að einhverjum menntaskólanna leyfist að halda úti slíku námi til hagsbóta fyrir æsku landsins og þar með samfélagið allt, enda nærist nútímasamfélag á fjölbreytninni í þessum efnum sem öðrum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×