Innlent

Studdu innrás í andstöðu við ráðleggingar embættismanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Utanríkisráðherra segir að skjöl í ráuneytinu sýni að þáverandi utanríkisráðherra og forsætisráðherra hafi tekið ákvörðun um að styðja innrás Bandaríkjmanna í Írak í andstöðu við ráðleggingar embættismanna. Um 90 skjöl eru til í utanríkisráðuneytinu sem varpa ljósi á um tveggja mánaða aðdraganda við stuðninginn.

Það kom flestum í opna skjöldu þegar í ljós kom að Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra höfðu hinn 18. mars 2003 lýsti yfir stuðningi Íslands við innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Írak sem hófst tveimur dögum síðar. Ekkert samráð hafði verið haft við utanríkismálanefnd Alþingis eins og lög kveða á um og málið olli strax miklum deilum.

Nú hafa tæplega milljón manns fallið vegna stríðsátakanna sem ekki sér fyrir endan á. Í fyrravor komu fram tvær tillögur á Alþingi, frá Ögmundi Jónassyni þingmanni Vinstri grænna og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þingmanni Samfylkingarinnar um rannsókn á þessari ákvörðun og birtingu skjala henni tengdri.

„Ég hófst þá handa við að láta mitt starfsfólk leita uppi skjöl sem þessu tengdust. Þau fundust nú ekki mörg sem slægur var í í skjalaskránni en þegar grannt var leitað kom nú hitt og þetta í ljós," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Tillögurnar döguðu upp á þingi og skölin voru því ekki afhent, en ef þingið óski eftir þeim eins og hann búist við fái þingið skjölin.

„Það má segja að fyrstu skjölin sem tegnjast þessu ná aftur til janúar (2003)," segir Össur. En ákvörðun um stuðning við innrásina hafi ekki verið tekin fyrr en um miðjan mars. Það sé því nokkur aðdragandi að málinu og ýmis samtöl hafi átt sér stað sem ýmislegt megi ráða af.

Þetta séu m.a. minnisblöð um samtöl og samskipti við bandaríska embættismenn og aðra. Össur segir fjölda skjalanna meiri en hann hefði átt von á. Flest skjölin hefðu lítið upplýsingagildi.

„En þetta gætu slegið upp í 80 til 90 skjöl. Af þeim eru nokkur, örfá, sem eru mjög athygliverð," segir utanríkisráðherra. Í heildina teldi hann skjölin varpa ljósi á aðdraganda þess að ráðherrarnir studdu innrásina.

„Og ég held að í sumum þeirra komi fram að embættismennirnir höfðu mjög einarða afstöðu í þessu máli og hún var hugsanlega ekki sú sama og stjórnmálamannanna sem síðar tóku ákvörðun," segir Össur. Án samráðs við Alþingi eins og lög kveði á um, aðra stjórnmálamenn og án samráðs við ríkisstjórnina. Ráðherrarnir hafi tekið ákvörðunina í andstöðu við ráðleggingar a.m.k. sumra embættismannanna.

Utanríkisráðherra segir að sum skjalanna hafi ekki verið í skjalaskrá ráðuneytisins en hafi með eftirgrennslan komið í leitirnar. Af þeim megi ráða að ef Alþingi ákveði að fara í rannsókn á málinu, kunni mikilvægar upplýsingar að fást með samtölum við embættismenn sem komu að málinu.

„Mér sýnist að það liggi mikilvægar upplýsingar í reynslusjóðum og huga þeirra sem tóku þátt í þessari atburðarrás, eða voru partur af henni, án þess að það hafi endilega verið skráð niður í ráðuneytinu á sínum tíma," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×