Erlent

Stríð vofir yfir á Kóreuskaga

Óli Tynes skrifar
Flakið af Cheonan híft af hafsbotni.
Flakið af Cheonan híft af hafsbotni. Mynd/AP

Spenna milli Norður- og Suður-Kóreu hefur vaxið með hverjum deginum síðan alþjóðleg rannsóknarnefnd staðfesti að norðanmenn hefðu sökkt herskipi sunnanmanna í síðasta mánuði.

Korvettunni Cheonan var sökkt með tundurskeyti frá norður-kóreskum kafbáti. Fjörutíu og sex sjóliðar fórust.

Um helgina tilkynntu stjórnvöld í Suður-Kóreu að öllum viðskiptum og matvælaaðstoð við Norður-Kóreu hefði verið hætt.

Jafnframt væri flutningaskipum á leið til Norður-Kóreu bannað að sigla um suður-kóreska landhelgi.

Í dag svöruðu norðanmenn fyrir sig með því að segja öllum samskiptum slitið. Jafnframt var sett siglinga og flugbann á Suður-Kóreu.

Einnig hafa borist fregnir af því að Norður-Kórea hafi skipað her sínum að búast til bardaga. Tólfhundruð þúsund manns eru í herafla landsins.

Í Suður-Kóreu er 28 þúsund manna bandarískt herlið.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna hefur skipað þeim í viðbragðsstöðu og sagt að Bandaríkin muni berjast með sunnanmönnum ef til þess kemur.

 







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×