Innlent

Strandveiðar lífgað upp á sjávarþorpin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Um 630 smábátar stunduðu strandveiðar við Ísland í sumar en veiðitímabilinu lauk í dag. Veiðarnar hafa lífgað upp á sjávarþorpin hringinn í kringum landið. Þannig fjórfaldaðist bátafjöldinn á Djúpavogi en höfnin þar hentar einkar vel til smábátaútgerðar. Dæmið þaðan sýnir vel hvaða áhrif lítil breyting á fiskveiðistjórnunarkerfinu getur haft fyrir einstök byggðarlög.

Það er reyndar orðið rólegt yfir bryggjunum á Djúpavogi, menn voru búnir með sameiginlegan strandveiðikvóta svæðisins þann 13. ágúst, en kerfið virkar þannig að kvótinn klárast yfirleitt á flestum svæðum fyrir miðjan hvern mánuð þá fjóra mánuði sem strandveiðarnar eru leyfðar.

Frá höfninni á Djúpavogi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Strandveiðin hefur komið afskaplega vel út hérna og verið heilmikið líf í höfninni,“ segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogs, í viðtali í fréttum Stöðvar 2. Þar var reyndar sýnt þegar verið var að landa úr bát sem veiðir samkvæmt aflamarki en þeir voru tiltölulega fáir orðnir eftir á hverjum stað áður en strandveiðar voru teknar upp fyrir sex árum.

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Andrés segir að fyrir tíma strandveiðinnar hafi fjöldi báta sem landaði yfir sumartímann verið komin niður í fimm til sex. 

„Núna eru allt að tuttugu bátar að landa hérna og það er heilmikið líf í kringum höfnina, eins og á að vera í svona sjávarþorpum. Þarna er hjartað í hverri byggð og þetta er það sem gefur þessu gildi.“


Tengdar fréttir

Kvótahafar halda áfram að senda kaldar kveðjur

Oddviti Djúpavogs segir að meðan Alþingi breyti ekki leikreglunum muni handhafar fiskveiðikvótans halda áfram að senda kaldar kveðjur inn í byggðarlög með því að yfirgefa þau fyrirvaralaust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×