Handbolti

Strákarnir lögðu Svía í Króatíu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Teitur Örn er hluti af liðinu í Króatíu.
Teitur Örn er hluti af liðinu í Króatíu. vísir/ernir
Íslenska U18 ára landsliðið í handbolta vann góðan sigur á Svíum, 32-29, en Evrópumótið í þessum aldursflokki fer fram í Króatíu þessa dagana.

Jafnræði var með liðunum og staðan var 5-5 eftir tíu mínútna leik, en Svíarnir leiddu svo í hálfleik með einu marki, 16-15.

Áfram héldu Svíarnir að leiða og þeir leiddu með tveimur mörkum, 22-20, þegar tuttugu mínútur lifðu leiks, en þá hrukku okkar menn í gang.

Þeir komust í fyrsta skipti yfir á 49. mínútu, 25-24, og létu þá forystu aldrei af hendi. Þeir unnu að lokum þriggja marka sigur, 32-29.

Ísland er því með tvö eins og Svíþjóð, en Svíþjóð vann Tékkland í fyrstu umferðinni. Ísland mætir Tékklandi á sunnudag í lokaumferð riðilsins.

Mörk Íslands í leiknum:

Teitur Örn Einarsson 9, Gísli Þorgeir Kristjánsson 7, Elliði Snær Vignisson 5, Sveinn Jóhannsson 4, Kristófer Sigurðsson 4, Alexander Másson 1, Sveinn Sveinsson 1 og Ágúst Grétarsson 1.

Andri Scheving varði 5 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 10 skot.


Tengdar fréttir

Tap í fyrsta leik í Króatíu

Íslenska U18-ára landsliðið í handbolta tapaði sínum fyrsta leik á Evrópumótinu í Króatíu, en liðið tapaði 34-29 fyrir heimamönnum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×