Innlent

Strætó skorar á fyrirtæki og stofnanir

Samúel Karl Ólason skrifar
Strætó skorar á fyrirtæki og stofnanir höfuðborgarsvæðisins að gera samgöngusamning við Strætó og hvetja starfsfólk til að nýta sér strætisvagna á hagstæðari kjörum. Með því væri hægt að draga úr umferð.

Í tilkynningu frá Strætó segir að bílafloti Íslendinga sé að stækka og umferðarþungi síðasta árs hafi aldri verið meiri frá því að mælingar hófust. Nánast sé hægt að gera ráð fyrir því að fyrir hvern starfsmann sem nýtir sér „vistvænar samgöngur þá minnkar álagið í umferðinni um einn heilan bíl“.

Skúli Örn Sigurðsson, sölustjóri Strætó bs. mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun og ræddi hvernig samgöngusamningar virka. Hægt er að hlusta á það hér að ofan.

Kortið kostar 61 þúsund krónur, eða um fimm þúsund krónur á mánuði, eins og Skúli orðar það, og veitir það fólki ótakmarkaðan aðgang að þjónustu fyrirtækisins allt árið.

Nú þegar eru rúmlega 160 vinnustaðir á höfuðborgarsvæðinu með virkan samning við Strætó og um 1.200 manns eru með gilt Samgöngukort. Skúli segir að markmið Strætó sé að gera enn betur til þess að létta umferð og þátttaka vinnumarkaðarins sé gríðarlega mikilvæg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×