Innlent

Störukeppni bitnar á skólunum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Gunnar Guðbjörnsson
Gunnar Guðbjörnsson
Öllum 28 kennurum söngskóla Sigurðar Demetz var sagt upp í gær. Gunnar Guðbjörnsson skólastjóri segir skólann upphaflega hafa gert ráð fyrir fjármögnun á grundvelli samkomulags Reykjavíkurborgar og ríkisins frá árinu 2011 en fjármögnunin dugar ekki lengur fyrir rekstri skólans. Fjármagnið frá hinu opinbera haldi til að mynda ekki í við launahækkanir.

„Samkvæmt lögunum er ætlast til að sveitarfélögin greiði kennslukostnaðinn í tónlistarskólunum.“

Í samkomulaginu 2011 kom ríkið með fjármagn inn í málaflokkinn. Gunnar segir að borgin telji að ríkið hafi tekið málaflokkinn yfir.

„Borgin vill ekki borga fyrir þennan mismun á þeim grundvelli að ríkið hafi tekið þetta yfir en þannig túlka önnur sveitarfélög það ekki. Í vor settust málsaðilar að samningaborði þar sem menntamálaráðuneytið átti áheyrnarfulltrúa. Þar var komist að niðurstöðu um ásættanlega lausn sem Reykjavík, Samband íslenskra sveitarfélaga og við hjá skólunum töldum að ríkið vildi styðja en annað kom í ljós fyrst í haust,“ segir Gunnar.

„Þegar leitað var eftir því hvort fjárheimilda hefði verið óskað af hendi ráðuneytis kom í ljós að menntamálaráðherra væri enn á þeirri skoðun að Reykjavík ætti ein að leysa málið. Það hefðum við þurft að vita fyrr.“

Skúli Helgason
Skúli Helgason, formaður Skóla- og frístundaráðs, segir það lykilatriði að ríkið, sveitar­félög og tónlistarskólar setjist niður og finni lausn á bráðavandanum.

„Við erum með raunhæft samkomulag í höndunum sem gengur út á að Reykjavíkurborg komi með 90 milljónir inn í þetta.“ Þá séu önnur sveitarfélög tilbúin að leggja til 30 milljónir en úti standi 60 milljónir frá ríki. Þá þurfi að samþykkja málið í ríkisstjórn og tryggja fjármagn á fjáraukalögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×