Íslenski boltinn

Stórleikir í Borgunarbikarnum í kvöld

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leik FH og KR í byrjun sumars.
Úr leik FH og KR í byrjun sumars. vísir/vilhelm
Tveir hörkuleikir fara fram í átta liða úrslitum Borgunarbikar karla í dag. Þá mætast annars vegar grannarnir í Víkingi og Val og hins vegar risarnir KR og FH.

Það verður grannaslagur að bestu gerð þegar Valsmenn sækja Víkinga heim. Liðin hafa ekki mæst í bikarleik síðan sumarið 2006, en þá höfðu Víkingar betur 2-1. Garðar Jóhannsson kom þá Val yfir, en Daníel Hjaltason jafnaði metin. Höskuldur Eiríksson skoraði svo sigurmarkið stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Í annari umferð Pepsi-deildarinnar mættust liðin, en þá gerðu þau 2-2 jafntefli. Kristinn Freyr Sigurðson og Patrick Pedersen komu Val í 2-0, en þeir Pape Mamadou Faye og Agnar Darri Sverrisson jöfnuðu metin fyrir Víking.

FH datt út fyrir KR í Borgunarbikarum í fyrra, en þá vann KR 1-0 sigur. KR fór þá alla leið og vann bikarinn, en markið gerði Baldur Sigurðsson sem nú leikur með SönderjyskE í Danmörku.

Liðin mættust í fyrstu umferð deildarinnar og þar hafði FH betur 3-1 eftir að KR hafði komist yfir með marki frá Jacob Schoop. Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin og Atli Guðnason bætti við tveimur mörkum.

ÍBV er komið áfram eftir sigur á Fylki í Vestmananeyjum í gær og átta liða úrslitunum lýkur svo með leik KA og Fjölnis á Akureyri á mánudag.

Leikurinn hefst klukkan 20:00, en leikurinn verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Útsending hefst stundarfjórðungi fyrir leik, en Borgunarmörkin eru svo á mánudag.

Leikir dagsins:

19.15 Víkingur - Valur (Víkingsvöllur)

20.00 KR - FH (Alvogenvöllurinn)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×