Innlent

Stórkostlegar rangfærslur Brynjars segir Bogi

Jakob Bjarnar skrifar
Menn takast grimmilega á um RÚV á netinu og þeirra á meðal eru Brynjar og Bogi.
Menn takast grimmilega á um RÚV á netinu og þeirra á meðal eru Brynjar og Bogi.
Bogi Ágústsson fréttamaður á Ríkissjónvarpinu vekur sérstaka athygli á útreikningum Jóns Þorvaldssonar stærðfræðings sem telur Brynjar Níelsson þingmann ofmeta kostnað meðalfjölskyldunnar af RÚV. Það gerir hann í hópi sem er virkur á Facebook og kallast Fjölmiðlanördar.

Bogi fylgir hlekk úr vör með eftirfarandi klausu:

Ég fagna umræðu um RÚV en bið jafnt andstæðinga sem fylgjendur um að halda sig við staðreyndir. Í þessari grein bendir stærðfræðingur á stórkostlegar rangfærslur Brynjars Níelssonar um útvarpsgjaldið. Það er engum málstað til framdráttar þegar staðreyndir eru affluttar.

Umræða um stöðu Ríkisútvarpsins hefur verið talsverð á samskiptamiðlum netsins. Hún hefur ekki farið fram hjá Brynjari sem telur rétt að benda mönnum á að reyna að halda sig við efnið:

Í stað þess að færa rök fyrir tilvist RUV í óbreyttri mynd sem kostar skattgreiðendur á fjórða milljarð á ári þvælist umræðan um það hvort það sé nákvæmlega rétt að nefskatturinn geti numið hálfum mánaðarlaunum meðalfjölskyldu á ári. Dugði ekkert minna en stærðfræðing til að reikna út að það stæðist ekki. Þetta er þekkt aðferð þegar rökin um efnið eru lítil sem engin, skrifar Brynjar á Facebooksíðu sína. Honum sýnist augljóst að menn vilji drepa umræðunni á dreif.

Þingmaðurinn vísar til pistils sem hann reit fyrir nokkrum dögum og virðist kveikja umræðna um Ríkisútvarpið.

Ég ritaði pistil fyrir nokkrum dögum um RUV. Hvort eðlilegt væri að skattgreiðendur borguðu allt að 4 milljörðum til að reka ljósvakamiðil. Meðalfjölskylda gæti þurfti að greiða nærrri 80 þúsund á ári hverju, sem eru miklir peningar fyrir tekjulágar fjölskyldur. Slengdi því svo fram að það gæti numið hálfum mánaðarlaunum slíkrar fjölskyldu. Það var að sjálfsögðu ekki nákvæmlega útreiknað enda aukaatriði málsins. Kann að vera að hlutfallið sé eitthvað minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×