Enski boltinn

Stóri Sam hættur hjá Palace og hættur í þjálfun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stóri Sam er hættur.
Stóri Sam er hættur. Vísir/Getty
Sam Allardyce er hættur sem knattspyrnustjóri Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni aðeins fimm mánuðum eftir að hann tók við starfinu af Alan Pardew.

Stóri Sam var fenginn til að bjarga Palace frá falli sem hann og gerði en þrátt fyrir að gera tveggja og hálfs árs samning hefur hann nú látið af störfum. BBC greinir frá.

Allardyce er ekki bara hættur sem stjóri Palace heldur er hann hættur í þjálfun en frá þessu greinir hann sjálfur í yfirlýsingu sem hann sendi á fjölmiðla í Bretlandi.

„Ég hef enga löngun til að taka við öðru starfi. Ég vil njóta lífsins á meðan ég er enn þá tiltölulega ungur og er nógu hraustur til að gera allt sem mig langar til að gera,“ segir hann.

„Þetta er rétti tíminn fyrir mig [að hætta]. Ég vil einfaldlega geta notið alls þess sem ekki er hægt að njóta þegar maður er undir þeirri pressu að stýra fótboltafélagi allan sólahringinn, hvað þá í ensku úrvalsdeildinni,“ segir Sam Allardyce.

Stóri Sam stýrði áður Bolton með góðum árangri en á 26 ára löngum þjálfaraferli kom hann einnig við hjá félögum eins og Newcastle, Blackburn, West Ham og Sunderland.

Allardyce var ráðinn þjálfari enska landsliðsins 22. júlí í fyrra en hætti í lok september sama ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×