Skoðun

Stöndum vörð um söngnám

Hanna Dóra Sturludóttir skrifar
Áhugi ungs fólks á klassískri söngmenntun á Íslandi er mikill og er það ákaflega ánægjulegt. Íslendingar eru söngelskir og fjöldi íslenskra óperusöngvara á glæstan feril hér heima og erlendis.

Nú er staðan þannig að öllum söngkennurum við Söngskóla Sigurðar Demetz hefur verið sagt upp. Ástæðan er sú að skólinn sér ekki fram á að geta starfað áfram eftir áramót án þess að steypa sér í miklar skuldir. Vandi skólans og annarra tónlistarskóla í Reykjavík á rætur sínar að rekja til deilna ríkisins og Reykjavíkurborgar um hver eigi að borga nám á mið- og framhaldsstigi í söng.

Án þess að vita hvort fjárveiting fæst frá Reykjavíkurborg og/eða ríkinu geta skólar eins og Söngskóli Sigurðar Demetz ekki haldið starfseminni áfram.

Ég er ákaflega þakklát mínum söngkennurum í gegnum tíðina og þau hafa öll haft mikil áhrif á mig. Eftir að ég fór sjálf að kenna, hef ég notið þess að deila þekkingu minni með nemendum og sjá þau þroskast og eflast sem listamenn. Það góða starf sem fer fram í Söngskóla Sigurðar Demetz hefur skilað mörgum góðum söngvurum út í söngheiminn og ég er stolt af því að vinna með þeim listamönnum sem þar eru.

Það væri mikill skaði fyrir sönglist á Íslandi ef skólinn getur ekki haldið starfi sínu áfram.

Ég skora á þá sem með málið fara að standa vörð um söngnám hér á landi og leysa þennan vanda sem við blasir fljótt og farsællega.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×