Skoðun

Stöndum saman

Bergsteinn Jónsson skrifar
„Hvernig get ég útskýrt dauðann fyrir þeim þegar ég skil hann ekki einu sinni sjálf?“ Þessu veltir 15 ára stúlka í Síerra Leóne fyrir sér eftir að yngri systkini hennar spyrja hvar foreldrar þeirra séu. Foreldrar barnanna létust úr ebólu. Systkinin fimm eru nú munaðarlaus. Enginn ættingja þeirra þorir að taka börnin að sér af ótta við að smitast af þessari lífshættulegu veiru.

Ebólufaraldurinn sem nú geisar í Vestur-Afríku er ein stærsta áskorun sem UNICEF og heimsbyggðin öll hefur staðið frammi fyrir á undanförnum árum. Við fáum ógnvænlegar fréttir af baráttu barna í samfélögum sem fyrir áttu erfitt uppdráttar. Í hverri viku hækka tölur sýktra og látinna í Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne. Heilsugæslustöðvar eru yfirfullar, skólar lokaðir, samfélagið lamað.

En það er von. Við vitum að hér er ekki við ofurefli að etja þó faraldurinn nú sé sá stærsti og útbreiddasti í sögunni. Við höfum áður sigrast á ebólu og vitum hvað þarf að gera til að ráða niðurlögum veirunnar. En til þess þurfum við hjálp og því hefur UNICEF á Íslandi blásið til neyðarsöfnunar til að efla aðgerðir gegn ebólufaraldrinum.

UNICEF hefur starfað áratugum saman í Vestur-Afríku og verið til staðar áður, á meðan og eftir að neyðarástand brestur á, hvort sem er vegna átaka, náttúruhamfara eða sjúkdóma. Í neyð eru það alltaf börnin sem verða verst úti. Þau eru fyrst til að sýkjast og deyja, ringulreið, missir og ótti setja velferð þeirra og framtíð í hættu.

Á örskotsstundu fáum við fréttir af atburðum frá öðrum löndum. Heimurinn er að minnka og atburðir í einni heimsálfu hafa áhrif á gang mála í annarri. Við erum í þessu saman. Við verðum að styðja hvert annað, vinna saman og hjálpa þeim sem á þurfa að halda. Viðvörunarbjöllum hefur verið hringt. Hvert einasta framlag skiptir sköpum við að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu ebóluveirunnar. Tökum öll þátt í baráttunni og verjum réttindi, líf og velferð barna heimsins.




Skoðun

Sjá meira


×