Skoðun

Stöndum með taugakerfinu!

Guðjón Sigurðsson skrifar
Nagandi óvissa er það sem leikur okkur verst sem haldin erum MND sjúkdómnum og það á einnig við um okkar nánustu. Er viðkomandi með sjúkdóminn? Hverrar gerðar er hann? Verður líftími minn mánuðir eða ár frá greiningu? Og svo framvegis.

Við sendum tæki á Mars og stýrum því frá jörðu en læknirinn getur enn þann dag í dag ekki sagt með 100% vissu að ég sé með MND. Hann getur mest sagt að ég sé að öllum líkindum með þennan fjanda. Það er hægt að greina þetta 100% í krufningu en vonandi skiljið þið að ég vil geyma það.

Eina sem getur minnkað óvissuna er aukin þekking á taugakerfi líkamans. Minn draumur er að hægt verði að taka úr manni lífsýni og eitthvað segi læknunum að viðkomandi sé með MND, hvaða gerð MND og svo auðvitað helst að viðkomandi sé ekki með MND. Þekking á taugakerfinu og virkni þess er forsendan fyrir því að finna lækningu við öllum taugasjúkdómum.

„Við veljum lífið – finnum lækningu við MND“ er mottó MND félagsins á Íslandi, ég styð það.

Ég skora á alla landsmenn að standa með okkur í leit okkar að þekkingu svo að í náinni framtíð verði hægt að leggja okkar ágæta félag niður.

Lifum heil og njótum augnabliksins.

Undirritum áskorunina til Sameinuðu þjóðanna öll sem eitt.

Takk fyrir.




Skoðun

Sjá meira


×