Enski boltinn

Stoke lætur reynslubolta fara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andy Wilkinson í baráttunni við Steven Pienaar, leikmann Everton.
Andy Wilkinson í baráttunni við Steven Pienaar, leikmann Everton. vísir/getty
Reynsluboltarnir Thomas Sörensen, Wilson Palacios og Andy Wilkinson fá ekki nýja samninga hjá enska úrvalsdeildarliðinu Stoke City. Núverandi samningar þeirra renna út 30. júní.

Þremenningarnir komu lítið við í sögu í vetur, líkt og á undanförnum árum.

Sörensen, sem er 38 ára, var sjö ár í herbúðum Stoke og lék alls 129 leiki með liðinu. Danski markvörðurinn missti sæti sitt til Asmir Begovic tímabilið 2010-11 og lék aðeins fjóra deildarleiki síðustu þrjú árin sín hjá Stoke.

Palacios, 30 ára, var keyptur frá Tottenham 2011 fyrir um sex milljónir punda. Hann náði sér ekki á strik á Brittania og lék aðeins 38 deildarleiki með Stoke á fjórum árum.

Wilkinson, 30 ára, er uppalinn hjá Stoke og lék sinn fyrsta leik með liðinu 2001. Hann var fastamaður í liðinu meðan Tony Pulis var við stjórnvölinn en spilaði lítið sem ekkert hjá Mark Hughes. Wilkinson var lánaður til Millwall í vetur og spilaði níu leiki með liðinu í B-deildinni.

Stoke endaði í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á nýafstöðnu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×