Enski boltinn

Stjórnarformaður Swansea ósáttur með forráðamenn Liverpool

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Wilfried Bony í leik Swansea og Liverpool á Anfield.
Wilfried Bony í leik Swansea og Liverpool á Anfield. Vísir/Getty
Huw Jenkins, stjórnarformaður Swansea, var óánægður er hann frétti að Liverpool hefði haft samband við Wilfried Bony án þess að fá til þess leyfi hjá Swansea.

Talið er að Liverpool hafi haft samband við umboðsmann Bony og kannað áhuga hans á að ganga til liðs við Liverpool í sumar. Bony er sagður vera gríðarlega spenntur fyrir því að leika í Meistaradeildinni með Liverpool.

Í samningi Bony er riftunarákvæði upp á 19 milljónir punda en framherjinn gekk til liðs við Swansea síðasta sumar frá Vitesse Arnhem fyrir 12 milljónir punda. Bony stóð sig vel á sínu fyrsta tímabili með velska klúbbnum en hann skoraði 25 mörk í 49 leikjum.

„Ég vissi ekki að Liverpool hefði haft samband, ég hef að minnsta kosti ekkert heyrt í Liverpool. Ég varð fyrir vonbrigðum með Liverpool þegar ég heyrði að þeir hefðu farið á bak við okkur til þess að hafa samband við Bony. Við munum reyna allt sem við getum til þess að halda honum áfram hjá okkur,“ sagði Jenkins í Sportsmail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×