Enski boltinn

Sterling vill sleppa við æfingaferð Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Raheem Sterling hefur óskað eftir því að hann verði ekki tekinn með í æfingaferð félagsins til Asíu og Ástralíu. Þetta kemur fram á vef enska dagblaðsins The Guardian.

Sterling hefur verið orðaður við Manchester City en á síðasta tímabili hafnaði hann nýju samningstilboði Liverpool. Engu að síður er hann samningsbundinn Liverpool í tvö ár í viðbót og knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers hefur sagt að hann sé ekki til sölu.

City hefur tvívegis lagt fram tilboð í Sterling en báðum hefur verið hafnað. Liverpool er sagt vilja fá 50 milljónir punda fyrir hinn tvítuga sóknarmann.

Liverpool heldur af stað í æfingaferðina á sunnudag en samkvæmt fréttinni mun Sterling hafa fundað með Rodgers þar sem hann ítrekaði ósk sína að fá að fara frá félaginu.

Talið er líklegt að þessar fréttir verði til þess að forráðamenn City freistist til að leggja fram nýtt tilboð. En að öllu óbreyttu reiknar Rodgers með því að Sterling verði í för með Liverpool í æfingaferðinni og spili í fyrsta æfingaleik þess í Bangkok á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×