Handbolti

Stephen Nielsen: Aldrei farið í vítakeppni áður

Ingvi Þór Sæmundsson í Strandgötu skrifar
Stephen Nielsen fagnar með liðsfélögum sínum.
Stephen Nielsen fagnar með liðsfélögum sínum. vísir/vilhelm
Stephen Nielsen var hetja Valsmanna í úrslitaleik Deildarbikars HSÍ og Flugfélags Íslands í dag, en Daninn varði þrjú víti frá leikmönnum Aftureldingar í vítakeppninni þar sem úrslitin réðust.

"Þetta voru þrír leikir á tveimur dögum," sagði Stephen skellihlæjandi í viðtali við Vísi eftir leikinn, en tvær framlengingar þurfti til að knýja fram úrslit í leik Vals og FH í undanúrslitunum í gær. Valsmenn spiluðu því í 160 mínútur á tveimur sólarhringum.

"Ég veit ekki alveg hvað maður á að segja. Þetta var mjög gaman, en það hefði líklega verið skemmtilegra að klára þetta í venjulegum leiktíma," bætti Stephen við, en hvernig fannst honum leikurinn spilast?

"Afturelding er með gott lið og það er ekki tilviljun að þeir séu í 3. sæti í deildinni. Við vissum að þeir myndu koma til baka, en við hefðum mátt halda forystunni betur" sagði Stephen en Valsmenn náðu sjö marka forskoti í byrjun seinni hálfleiks sem Mosfellingar unnu upp.

"Þetta var skrítinn leikur og stundum fannst manni eins og sigurinn væri í höfn og stundum hélt maður að værum búnir að tapa. En liðið sýndi frábæran karakter sem verður vonandi áfram til staðar," sagði Stephen en hvernig leið honum í vítakeppninni?

"Ég hef ekki farið í vítakeppni í handbolta. Þetta var mjög skemmtilegt og það var allt eða ekkert. Það var gaman að vinna en það verður miklu betra ef verðum í svona stöðu í apríl eða maí," sagði Stephen að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×