Innlent

Stelpur taka tíu sinnum minna en strákar fyrir hundapössun

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Stelpur rukka 100 krónur, en strákar þúsund krónur.
Stelpur rukka 100 krónur, en strákar þúsund krónur.
Í Samkaup Strax í Kópavogi hanga tvær auglýsingar hlið við hlið þar sem boðið er upp á hundapössun. Önnur auglýsingin er frá strákum í hverfinu og hin frá stúlkum. Hálftíminn hjá strákunum kostar 1000 krónur en er tíu sinnum ódýrari hjá stelpunum, en þær verðleggja hálftímann á hundrað krónur.

Framkvæmdastýra jafnréttistofu, Kristín Ástgeirsdóttir, segir þetta vera endurspeglun á þeim skilaboðum sem stúlkum séu send. „Þetta er fyrst og fremst grátlegt,“ bætir hún við.

Hér má sjá auglýsingarnar.
Stúlkurnar miklu ódýrari

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd rukka stúlkurnar hundrað krónur fyrir hálftímann og tvö hundruð krónur fyrir klukkutímann.

„Við erum 11 ára stelpur,“ skrifa þær og segja að þær hafi mikinn áhuga á hundum. 

Verðið hjá strákunum er talsvert hærra, eða þúsund krónur fyrir hálftímann og tvö þúsund krónur fyrir klukkutímann. Þeir veita afslátt ef keypt er eins og hálfs tíma ganga, hún kostar 2600 krónur.

 Kristín segir að þarna kristallist sú staðreynd að skilaboðin sem séu send börnum séu að konur séu minna virði en karlar. „Þetta hefur verið rætt mikið og reynt að breyta þessu. En gengur greinilega mjög illa,“ segir framkvæmdastýran.

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.
Foreldrar geti reynt að berjast gegn umhverfinu

„Skilaboðin liggja rosalega víða í umhverfinu,“ segir Kristín.

En hvað geta foreldrar gert til að sporna við þessari þróun?

„Þeir geta reynt að ræða þetta við börnin sín. Þeir geta reynt að berjast gegn umhverfinu, en það þarf ofboðslega mikið átak,“ svara Kristín. Hún segir að skilaboðin séu allt í kring og í hnattvæddum heimi geti reynst erfitt að stýra því sem hefur áhrif á börn.

Kristín segir að það þurfi til dæmis að horfa á barnaefni í sjónvarpi og barnabækur. „Já, barnatíminn byrjar snemma á morgnanna um helgar og það er rík ástæða til þess að skoða hvað börnin eru að horfa á. Einnig má skoða boðskap barnabóka.“

Oft er bent á þetta, að karlar fari fram á hærri laun en konur, þegar launamunur kynjanna er ræddur, er þetta birtingarmynd þess?

„Já, nema að þarna er margfaldur munur á launakröfum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×