Innlent

Steingrímur: Þrotlaust strit og púl

Það er til uppörvunar þjóðinni að horfa á þessar útsendingar fyrsta hálftímann,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Fréttablaðið/GVA
Það er til uppörvunar þjóðinni að horfa á þessar útsendingar fyrsta hálftímann,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Ríkisstjórnin stendur traustum fótum, sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í gær, spurður um stöðu stjórnarsamstarfsins eftir brotthvarf tveggja liðsmanna úr þingflokki VG. Tilefnið var ummæli, höfð eftir Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra, um að stjórnarsamstarfið stæði sterkara eftir. Steingrímur sagði ómaklegt að halda því fram að Össur hefði þar fagnað úrsögn Lilju og Atla.

Ríkisstjórnin héldi áfram að axla ábyrgð á verki sem hún hefði náð miklum árangri við. Sumir héldu því fram að vandann mætti leysa með ókeypis töfrabrögðum en það er rangt, segir Steingrímur: „Þetta er þrotlaust strit og púl, erfið vinna og flórmokstur, sem við höfum verið í til að skapa hér grunninn að nýju og betra samfélagi,“ sagði fjármálaráðherra. Þingmenn hlógu undir orðum hans. „Nú hlæja ýmsir,“ sagði Steingrímur þá, „það eru þeir sem lögðu til mykjuna í flórinn.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði ræðuna „Best of…“ Steingríms; fátt hefði gerst síðastliðin tvö ár en hann talaði um hvað ríkisstjórnin ætti erfitt, allt væri öðrum að kenna en nú væri þetta allt að koma.

Steingrímur bað menn þá að staldra við og þakka fyrir stöðuna í íslensku samfélagi: „Við búum í tíunda til fimmtánda mesta velmegunarsamfélagi hnattarins í dag, þrátt fyrir hrunið,“ sagði ráðherrann. „Við erum með sterkt samfélag og þróaða og öfluga innviði.

Háttvirtir svartsýnis- og bölsýnismenn, sem eru með „himin helltan af myrkri fullan“ hvern dag, svo vitnað sé í gamalt textabrot, þeir ættu að hafa þetta í huga.“ - pg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×