Viðskipti innlent

Stefnumót þarfa og lausna í áliðnaði

Pétur Blöndal skrifar
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, Samtaka álframleiðenda.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, Samtaka álframleiðenda.
Áliðnaður á Íslandi stendur á tímamótum. Byggst hefur upp öflugur klasi í kringum íslensku álfyrirtækin, sem samanstendur af hundruðum fyrirtækja, þar á meðal nýsköpunarfyrirtækjum sem flytja út vörur og þekkingu til álvera um allan heim. Áliðnaðurinn er ein þriggja helstu útflutningsgreina þjóðarinnar með öflugum alþjóðlegum fyrirtækjum sem eru gluggi út í heim fyrir íslenska nýsköpun. Mikilvægt er að Íslendingar nýti sér það samkeppnisforskot.

Öflugir klasar í orkuiðnaði

Segja má að iðnaðaruppbygging hafi hafist fyrir alvöru hér á landi með álverinu í Straumsvík á sjöunda áratugnum. Landsvirkjun var stofnuð árið 1965 um byggingu Búrfellsvirkjunar, sem lengi var langstærsta virkjun landsins, og ábyrgðist álverið lánin sem tekin voru til að standa straum af þeirri framkvæmd.

Fram kom hjá forsvarsmönnum Landsvirkjunar á síðasta ársfundi að rekstur þessa þjóðarfyrirtækis hefur aldrei gengið betur og að það gæti að óbreyttu greitt niður skuldir sínar að fullu á innan við níu og hálfu ári miðað við síðustu áramót. Yfir 70% af tekjum Landsvirkjunar skapast vegna viðskipta við álfyrirtækin.

Myndast hefur grunnur að öflugum klösum í orkuiðnaði hér á landi. Klasakenningin á sem kunnugt er rætur að rekja til kennimannsins Michaels Porters, sem bent hefur á að tækifæri liggi í sjávarútvegi, jarðvarma og málmorkuiðnaði hér á landi. Samkvæmt grein Runólfs Smára Steinþórssonar prófessors og Guðjóns Arnar Sigurðssonar felst klasi í samsöfnun fyrirtækja og stofnana í skilgreindum iðnaði á afmörkuðu svæði, sem leiðir af sér jákvæð ytri áhrif sem ýtir undir verðmætasköpun og möguleika til sérhæfingar og nýsköpunar.

Stefnumót um þarfir og lausnir

Síðastliðið vor tóku yfir fjörutíu fyrirtæki og stofnanir þátt í tveggja daga stefnumótunarfundi fyrir íslenskan álklasa í Borgarnesi. Höfuðáhersla var lögð á að efla rannsóknir og þróun, samstarf við háskólasamfélagið og að skapa farveg fyrir frekari sókn út fyrir landsteinana.

Mikilvægt skref verður stigið í þessa átt með stefnumóti í Háskólanum í Reykjavík 18. nóvember nk., en markmiðið er að leiða saman þarfir og lausnir í áliðnaði. Fyrirtækjum og einstaklingum gefst þar tækifæri til að kynna hugmyndir á breiðu sviði að framþróun í áliðnaði og eftir það verða þær þróaðar áfram í smærri hópum með mögulegum samstarfsaðilum – vonandi eiga einhverjar þeirra eftir að stuðla að nýsköpun í áliðnaðinum í heild, innan gróinna fyrirtækja eða verða að sprotafyrirtækjum í náinni framtíð.

Ísland er næststærsti álframleiðandi í Evrópu á eftir Norðmönnum. Fram kom í máli Gerd Götz, framkvæmdastjóra Evrópsku álsamtakanna, á ársfundi Samáls í vor að íslenskur áliðnaður er í lykilstöðu landfræðilega þar sem ESB flytur nú í fyrsta skipti inn yfir helming af öllu áli sem notað er til framleiðslu í álfunni. Geta má nærri að ESB er meginmarkaðssvæði íslensks áliðnaðar. Til gamans má geta þess að hver Evrópubúi notaði að jafnaði 22 kíló af áli árið 2012, enda er það algengt í samgöngutækjum, byggingum, pakkningum, vélbúnaði og tækjum á borð við farsíma og tölvur.

Áliðnaður á Íslandi stendur á tímamótum. Eftirspurn á heimsvísu eftir áli fer ört vaxandi, verðið hefur stigið á þessu ári og birgðir fara minnkandi. Það felst sóknarfæri í öflugum áliðnaði og það er mikilvægt að nýta það samkeppnisforskot til að efla útflutning á íslenskum vörum og þekkingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×