Erlent

Stefna að rottulausu Nýja-Sjálandi árið 2050

Atli Ísleifsson skrifar
John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, blær til herferðar gegn rottum.
John Key, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, blær til herferðar gegn rottum. Vísir/Getty/AFP
„Við vonumst til að allir hlutar Nýja-Sjálands komi til með að verða laust við þær árið 2050,“ segir forsætisráðherrann John Key, en nýsjálensk stjórnvöld munu á næstu árum vinna markvisst að því að útrýma rottum, pokarottum og hreysiköttum í landinu.

Key kynnti áætlun stjórnvalda í morgun og segir ráðherrann verkefnið vera metnaðarfyllsta dýraverndunarverkefni sem nokkur hafi tekið að sér í heiminum. „En ef við vinnum saman sem þjóð þá munum við geta það.“

Ástæða þess að þarlend stjórnvöld stefna að því að útrýma umræddum tegundum er að þær eru aðfluttar og drepa um 25 milljónum fugla á ári, þeirra á meðal þjóðarfugl landsins, kiwi-fuglinn.

Um tuttugu kiwi-fuglar drepast að meðaltali í viku hverri og óttast Nýsjálendingar að tegundin deyi út, en einungis um 70 þúsund kiwifuglar eru nú til í heiminum.

Verkefnið mun kosta fleiri milljarða yfir nokkurra áratuga skeið og verður herinn meðal annars notaður í baráttunni gegn meindýrunum.

Talið er að stærsta áskorunin verði að útrýma þeim rottum sem er að finna í þéttbýlum svæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×