Innlent

Starfsgreinasambandið vísar kjaradeilu til sáttasemjara

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir
Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur veitt samningaráði umboð til að vísa kjaradeilu þess við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Í tilkynningu frá sambandinu segir að launakröfur þess hafi verið birtar SA í húsnæði ríkissáttasemjara þann 26. janúar.

„Þar lýstu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins því strax yfir að kröfugerðin gæti ekki orðið grundvöllur að samningagerð og höfnuðu frekari viðræðum við samninganefnd Starfsgreinasambandsins.“

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins funduðu í dag og á fundinum lýstu þeir vonbrigðum með þessi viðbrögð SA og segja þau endurspegla ábyrgðarleysi.

„Kjarasamningar muni ekki nást nema deiluaðilar ræðist við. Með viðbrögðum sínum hafi Samtök atvinnulífsins hins vegar ákveðið að skila auðu.“

Í ljósi þessara viðbragða undirbúa aðildarfélög Starfsgreinasambandsins nú að vísa deilunni til ríkissáttasemjara og hefja undirbúning aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×