Fótbolti

Staðfest að jafntefli dugar strákunum okkar á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eitt stig í viðbót og þá er íslenska landsliðið komið í sextán liða úrslit á sínu fyrsta EM.
Eitt stig í viðbót og þá er íslenska landsliðið komið í sextán liða úrslit á sínu fyrsta EM. Vísir/EPA
Íslenska knattspyrnulandsliðið er nú aðeins einu stigi frá því að tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum EM í Frakklandi á sínu fyrsta stórmóti.

Eftir leiki dagsins á Evrópumótinu í Frakklandi er það orðið ljóst að íslenska liðinu nægir jafntefli í lokaleiknum sínum til að komast áfram upp úr riðlinum og skiptir þá engu hvernig leikur Ungverjalands og Portúgals fer.

Ísland mætir Austurríki í lokaleik sínum klukkan fjögur á Stade de France á morgun og slakari árangur liða úr þriðja sæti í öðrum riðlum þýðir að þrjú stig duga.

Íslenska liðið á hinsvegar ennþá möguleika á því að vinna riðilinn vinni liðið Austurríki á morgun.

Nái íslensku strákarnir stigi í leiknum á móti Austurríki verða þeir með þrjú stig og slétta markatölu. Tvö af liðunum sex sem enda í þriðja sæti í sínum riðli komast ekki í sextán liða úrslitin.

Bæði lið Albaníu (3. sæti í A-riðli) og lið Tyrklands (3. sæti í D-riðli) eru með 3 stig en þau eru aftur á móti með neikvæða markatölu. Þau verða því alltaf neðar en íslenska liðið endi Ísland með þrjú stig í þriðja sætinu í F-riðli.

Það þarf hinsvegar ekkert að vera að liðið í þriðja sæti í F-riðli komist áfram því ef Portúgal tapar á móti Ungverjum á morgun á sama tíma og Austurríki tekst ekki að vinna Ísland, þá enda Portúgalar í 3. sæti með tvö stig og komast þar af leiðandi ekki í sextán liða úrslitin.

Um leið og það var ljóst að íslensku strákunum nægir jafntefli úr Austurríkisleiknum þá er það líka öruggt að bæði lið Slóvakíu og Norður-Írlands eru komin áfram í sextán liða úrslit þrátt fyrir að hafa endað í þriðja sæti í sínum riðli.

Slóvakar eru með 4 stig og Norður-Írar eru með 3 stig og betri markatölu en bæði Tyrkland og Albanía. Tyrkland og Albanía verða því alltaf neðar en Norður-Írland sama hvað gerist í síðustu tveimur riðlunum á morgun.


Tengdar fréttir

Fyrsti leikur sextán liða úrslitanna klár | Ungverjar komnir áfram

Keppni er nú lokið í þremur riðlum á Evrópumótinu í Frakklandi og eftir að leikjunum lauk í C-riðlinum í dag er það orðið ljóst hvaða þjóðir mætast í fyrsta leik sextán liða úrslitanna. Það varð líka ljóst að Ungverjar eru öruggir með sæti í sextán liða úrslitunum hvernig sem fer á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×