Körfubolti

St. Francis vann aftur Íslendingaslaginn um Brooklyn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Ólafsson.
Gunnar Ólafsson. Vísir/Vilhelm
Gunnar Ólafsson og félagar í St. Francis Brooklyn unnu 75-69 sigur á LIU Brooklyn í framlengingu í bandaríska háskólaboltanum í gær. St. Francis vann þar með báða leiki skólanna í ár.

Martin Hermannsson tryggði LIU Brooklyn framlengingu með því að skora úr þremur vítaskotum þegar 4,4 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma. Hann fékk einnig tækifæri til að skora sigurkörfuna en skot hann í lok venjulegs leiktíma geigaði.

St. Francis Brooklyn liðið vann síðan framlenginguna 12-7 en Elvar Már Friðriksson spilaði ekkert í henni. Martin klikkaði á báðum skotum sínum í framlengingunni.

Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson skoruðu báðir 7 stig í leiknum en þeir hittu bara úr 1 af 8 skotum sínum og 12 af 14 stigum þeirra komu því af vítalínunni.

Martin var einnig með 5 fráköst, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta og Elvar tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þeir félagar voru einnig með þrettán tapaða bolta saman þar af tapaði Elvar boltanum átta sinnum í leiknum.

Gunnar Ólafsson spilaði í ellefu mínútur með St. Francis en tókst ekki að skora. Hann var með 1 skot (þriggja stiga skot sem klikkaði) og 1 frákast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×