Erlent

Sprengingin í New York: Segir að um tilraun til hryðjuverkaárásar hafi verið að ræða

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin var gerð á Port Authority samgöngumiðstöðinni laust fyrir klukkan sjö að staðartíma.
Árásin var gerð á Port Authority samgöngumiðstöðinni laust fyrir klukkan sjö að staðartíma. Vísir/AFP
Bill De Blasio, borgarstjóri New York borgar, segir að sprengingin sem var gerð nálægt Times-torgi í New York í morgun hafi verið tilraun til hryðjuverkaárásar.

27 ára karlmaður hefur verið handtekinn vegna málsins en hann særðist, auk fjögurra annarra. Enginn er talinn alvarlega særður.

Árásin var gerð á Port Authority samgöngumiðstöðinni laust fyrir klukkan sjö að staðartíma þegar fjölmenni var þar sem fólk var á leið til vinnu. Samgöngumiðstöðin er á horni 42. strætis og áttunda breiðstrætis.

„Við erum New York-búar“

„Hryðjuverkamenn munu ekki sigra. Við eru New York-búar,“ sagði De Blasio við fréttamenn. Er talið að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki.

Bandarískir fjölmiðlar segja að árásarmaðurinn hafi verið með rörasprengju vafna utan um sig og telja heimildarmenn CNN innan lögreglunnar að sprengjan hafi sprungið of snemma og fyrir mistök.

Fréttir hafa borist um að maðurinn hafi lýst yfir stuðningi við hryðjuverkasamtökin ISIS, en De Blasio vildi ekki staðfesta það á blaðamannafundi. Sagði hann málið enn vera til rannsóknar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×