Innlent

Spítalinn verði austan Elliðaáa

Gestur Ólafsson
Gestur Ólafsson
„Það er gjörsamlega galið hvernig farið hefur verið með almannafé. Það hefur verið varið hátt í þrjú þúsund milljónum í vangaveltur um hönnun einstakra bygginga nýs Landspítala án þess að almennileg, forsvaranleg staðarvalsgreining hafi verið gerð.“

Þetta segir Gestur Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðingur sem telur nýjan samgönguás í austurhluta borgarinnar ákjósanlegan stað fyrir nýjan Landspítala. „Byggðin austan til á höfuðborgarsvæðinu er að vaxa saman og mynda samgönguás sem nær frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar og reyndar alla leið frá Borgarnesi til Keflavíkur. Spítalabyggingar endast ekki nema í 40 ár.

Þá þarf að byggja nýtt og svæðið austan Elliðaáa er miklu rýmra.“ Gestur fullyrðir að ástandið á Miklubraut verði óviðunandi verði ekki af gerð Sundabrautar. „Það er gert ráð fyrir 50 þúsund bílum á Sundabraut á sólarhring í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Ef sá fjöldi bætist við umferðina á Miklubraut verður ástandið skelfilegt, einkum ef halda á uppi þokkalegu þjónustustigi.“

Gestur segir staðsetninguna koma öllum landsmönnum við. „Það tekur til dæmis hálfa klukkustund að aka frá Selfossi að Rauðavatni og það má ekki taka annan hálftíma eða rúmlega það að komast að spítalanum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×