Körfubolti

Spennandi tímar framundan hjá ÍR

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sveinbjörn Claessen í leik með ÍR.
Sveinbjörn Claessen í leik með ÍR. Vísir/Vilhelm
Sveinbjörn Claessen, leikmaður ÍR, kemur til með að leika með liðinu á næstu leiktíð. Sveinbjörn hafði látið hafa eftir sér að hann myndi halda út til Noregs í nám en hann er lögfræðingur að mennt.

 

„Hvað heldur þú, maður getur ekkert skorast undan þessu. Þetta er mitt lið og ég verð klár í slaginn. Námið verður sett á ís í nokkur ár og síðan tekur sá kafli við þegar að því kemur,“ sagði Sveinbjörn þegar Vísir heyrði í honum í dag.

Ljóst er að þetta eru gríðarlega góðar fréttir fyrir ÍR en eins og Vísir greindi frá var Sveinbjörn sá íslenski leikmaður sem náði flestum tuttugu stiga leikjum í deildinni í vetur en hann skoraði 20 stig eða meira í 14 leikjum auk þess að vera með 19 stig í tveimur leikjum til viðbótar.

„Lokastaðan síðasta vetur endurspeglar ekki getu liðsins enda er stigasöfnun liðsins fyrir og eftir áramót eins og svart og hvítt. Við verðum öflugri og betri í vetur og það býr gríðarlega mikið í þessu liði,“ sagði Sveinbjörn sem vildi ekki missa af því.  

 

„Við skulum segja það, það eru spennandi tímar í vændum og það verður gaman í Breiðholtinu í vetur eins og alltaf,“ lofaði Sveinbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×