Innlent

Sorglegt að áfengisfrumvarpið sé komið aftur fram

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
„Mitt álit og álit embættisins er alfarið á móti, við leggjumst gegn þessari tillögu og það er í sjálfu sér sorglegt að hún skuli vera komin fram enn og aftur,“ segir Birgir Jakobsson, landlæknir, um frumvarp um frjálsa verslun áfengis sem lagt var fram á Alþingi í gær.

Þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar, Bjartrar Framtíðar og Pírata hafa lagt fram frumvarp um frjálsa sölu áfengis. Næði frumvarpið fram að ganga yrði verslunum heimilt að selja áfengi frá og með næstu áramótum, staða innlendra og erlendra aðila yrði jöfnuð þegar kæmi að auglýsingu áfengis og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins yrði einfaldlega tóbaksverslun ríkisins.

Samanlagt hafa flokkarnir öruggan meirihluta á þingi fyrir málinu en þó er nokkuð um efasemdir í þeirra röðum. Í samtali við Fréttablaðið í morgun sagðist Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vera mótfallin málinu og þá sagðist Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata ætla að láta álit Landlæknis ráða för.

Fréttastofa leitaði álits landlæknis, um málið.

„Allar rannsóknir sem liggja fyrir benda til þess að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar notkunar,“ segir Birgir. „Þá erum við sérstaklega að tala um viðkvæma hópa líkt og ungt fólk og þá sem þola ekki áfengi og þar af leiðandi aukið tjón fyrir heilsu fólks og aukinn kostnað fyrir þjóðfélagið,“ segir hann.“

„Það er augljóst mál að þetta embætti sem á að stuðla að bættri heilsu landsmanna getur ekki annað gert en að leggjast á móti svona frumvarpi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×