Fótbolti

Sonur Zidane rekinn útaf fyrir að skalla mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luca Zidane.
Luca Zidane. Vísir/Getty
Luca Zidane, sonur frönsku knattspyrnugoðsagnarinnar Zinedine Zidane, gerði allt vitlaust á dögunum í leik 17 ára liða Real Madrid og Atletico Madrid.

Luca Zidane spilar sem markvörður hjá sautján ára liði Real Madrid og átti ekki góðan dag þegar Real Madrid tapaði 4-2 á móti nágrönnum sínum.

Luca Zidane fékk á sig fjögur mörk í leiknum og var allt annað en sannfærandi í markinu.

Hann gerði síðan illt verra þegar hann fékk beint rautt spjald fyrir að skalla ein leikmann mótherjanna.

Luca Zidane kveikti vel í leikmönnum liðanna með þessari framkomu sinni og úr varð mikil uppákoma þar sem dómari leiksins þurfti að hafa sig allan við til að ná aftur tökum á leiknum. Hann gaf Luca Zidane síðan rauða spjaldið.

Það að Luca Zidane hafi fengið rautt spjald fyrir að skalla leikmann minnir menn á lokaleik föður hans Zinedine Zidane.

Zinedine Zidane fékk rautt spjald í úrslitaleik HM 2006 fyrir að skalla ítalska varnarmanninn Marco Materazzi. Þetta var síðasti leikur Zidane á ferlinum.

Zidane á marga syni í unglingaliðum Real Madrid. Theo og Elyaz spila í akademíunni og Enzo er fyrirliði varaliðsins. Kannski er Luca Zidane bara svarti sauðurinn í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×