Viðskipti innlent

Söluferli Sjóvár á lokastigum

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Söluferlið á tryggingafélaginu Sjóvá er nú á lokasprettinum en aðeins vantar samþykki Seðlabankans. Kaupendur eru Heiðar Már Guðjónsson og Ársæll Valfells, lífeyrissjóðir, Arion banki og fleiri fjárfestar.

Vorið 2009 óskaði skilanefnd Glitnis eftir því við helstu kröfuhafa eignarhaldsfélaga Sjóvár að staðið yrði sameiginlega að aðgerðum til að bjarga tryggingarhluta Sjóvár frá gjaldþroti.

Kröfuhafarnir, sem voru dótturfélag skilanefndar Glitnis, Íslandsbanki og ríkissjóður lögðu félaginu til aukið eigið fé og þannig komst það í þeirra eigu.

Hlutur ríkissjóðs var svo færður inn í Eignasafn Seðlabankans, sem er að fullu í eigu Seðlabanka Íslands, en íslenska ríkið setti samtals ellefu milljarða króna til að tryggja rekstur Sjóvár á síðasta ári.

Eignarhaldinu á Sjóvá er þannig háttað í dag að Eignasafn Seðlabanka Íslands á 73 prósenta hlut, Íslandsbanki á 9,3 prósent og SAT eignarhaldsfélag skilanefndar Glitnis á 17,7 prósent.

Undanfarna níu mánuði hefur verið unnið að söluferli Sjóvár og að undangengnum viðræðum stóð einn hópur fjárfesta eftir sem líklegur kaupandi, en þetta var tilkynnt í mars síðastliðnum, fyrir rúmum sex mánuðum síðan. Um er að ræða hóp fjárfesta undir forystu Heiðars Más Guðjónssonar.

Með Heiðari Má eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Ársæll Valfells, Stefnir, eignastýringarfyrirtæki Arion banka og systkinin Guðmundur Jónsson og Berglind Jónsdóttir. Guðmundur og Berglind áttu áður útgerðarfyrirtækið Sjóla í Hafnarfirði. Þá áttu þau útgerðarfélag í Afríku sem þau seldu Samherja fyrir þremur árum með miklum hagnaði. Eftir því sem fréttastofa kemst næst voru þau systkinin aðallega með fjárfestingar erlendis og fóru því ekki illa út úr bankahruninu hér heima. Meðal þeirra sem fjárfesta í gegnum Stefni eru fjölmargir lífeyrissjóðir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Íslandsbanki samþykkt að selja sinn hlut, en beðið er eftir samþykki Seðlabankans, en bankinn mun funda með tilboðsgjöfum á morgun.

Í raun og veru þarf aðeins undirskrift Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, til að klára samninginn. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur skilanefnd Glitnis ekki áhuga á að selja sinn hlut. Kaupverð á Sjóvá hefur ekki fengist upp gefið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×