Enski boltinn

Sol Campbell: Dele Alli er efnilegur en er ekki orðinn heimsklassa leikmaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dele Alli í leik gegn Norwich.
Dele Alli í leik gegn Norwich. vísir/getty
Sol Campbell, fyrrverandi miðvörður Totteham, Arsenal og enska landslisðins, vill sjá Dele Alli, leikmann Spurs, sýna stöðugleika áður en farið er að tala um hann sem heimsklassa leikmann.

Hinn 19 ára gamli Alli, sem kom frá MK Dons til Tottenham í janúar í fyrra en byrjaði svo að spila með Spurs í vetur, er búinn að fara á kostum á tímabilinu og skora sjö mörk.

Hann var valinn í enska landsliðið og skoraði í sínum fyrsta landsleik á móti Frakklandi í nóvember, en margir telja hann öruggan byrjunarliðsmann í enska landsliðinu þegar kemur að EM í Frakklandi.

„Hann er svo sannarlega mjög efnilegur leikmaður, en hann er rétt að byrja. Ég vil eiginlega ekki vita af leikmönnum fyrr en þeir eru búnir að spila í fimm til sex ár og ég sé að þeir geta sýnt stöðugleika,“ segir Campbell.

„Það geta allir spilað vel yfir eina leiktíð eða tvær. Ég vil sjá leikmann spila vel í fimm, tíu eða fimmtán ár áður en ég kalla hann heimsklassa leikmann.“

„Við höfum sé leikmenn fara hamförum í deildinni áður í kannski tvö til þrjú ár en síðan hverfa. Ég er ekki að segja að það muni koma fyrir Alli en hann þarf að halda áfram á sömu braut,“ segir Sol Campbell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×