Handbolti

Snorri: Verð orðinn góður fyrir leikana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Snorri Steinn Guðjónsson hefur ekki áhyggjur af því að hann muni ekki geta spilað með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum sem hefjast síðar í vikunni.

Snorri missti af æfingaleik Íslands gegn Argentínu í gær þar sem hann er með sinaskeiðabólgu í vinstri hendi.

„Ég er bara sæmilegur. Í fyrsta lagi eru meiðslin á vinstri hendi sem einfaldar hlutina töluvert," sagði hann í samtali við Vísi.

„En úlnliðinn er búinn að vera stokkbólginn og þetta hefur verið sérstaklega slæmt á kvöldin og á nóttinni. En þetta er samt eitthvað sem ætti ekki að setja strik í reikninginn."

Hann fór til sérfræðings í morgun og vonar að það muni hjálpa til. „Ég byrja vonandi á lyfjakokteil í dag sem mun hjálpa til við að ná bólgunni úr mér sem allra fyrst. Ég ætti að vera orðinn góður á sunnudaginn," sagði hann en þá á Ísland fyrsta leik á mótinu.

„En það er engin hætta á því að ég missi af mótinu. Það væri dramatískt að halda slíku fram. Ég reikna jafnvel með því að geta æft á morgun," bætti Snorri við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×