Innlent

Snæugla með ljótt sár á væng var í aðhlynningu í Víðidal

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Dýraspítalinn í Víðidal
„Við höfum einu sinni áður fengið snæuglu til okkar,“ segir Katrín Harðardóttir dýralæknir hjá Dýraspítalanum í Víðidal. Í gær var komið með snæuglu til þeirra sem var með slæmt sár á vænginum.

„Hún er hress en þetta er mjög ljótt sár að sjá,“ segir Katrín. Uglan kom frá Náttúrustofu Vestfjarða, eftir að starfsmenn fiskeldis í Tálknafirði fundu hana eftir að hún flæktist í net.

Katrín segir spítalann vera með samning við Húsdýragarðinn um að sinna villtum fuglum í sameiningu. „Það kemur ekki oft fyrir en við fáum stundum til okkar ránfugla líka,“ segir hún.

Aðspurð hvort það geti ekki verið hættulegt fyrir fingur dýralækna segist hún vera með ör eftir fálka sem kom eitt sinn til þeirra til aðhlynningar. Fuglarnir séu þó í vörslu fólks sem kunni að fara með slík dýr.

Mynd/Dýraspítalinn í Víðidal



Fleiri fréttir

Sjá meira


×