Körfubolti

Snæfellskonur á tíu leikja sigurgöngu inn í jólafríið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir og félagar hennar fara brosandi í jólafríið.
Hildur Sigurðardóttir og félagar hennar fara brosandi í jólafríið. Vísir/Ernir
Kvennalið Snæfells verður með fjögurra stiga forskot á toppi Dominos-deildar kvenna í körfubolta yfir hátíðirnar eftir 34 stiga sigur á botnliði Breiðabliks, 79-45, í Stykkishólmi í kvöld.

Snæfellskonur hafa unnið tíu síðustu deildarleiki sína og alls þrettán af fjórtán leikjum sínum á tímabilinu.

Kristen Denise McCarthy var atkvæðamest hjá Snæfelli með 22 stig en Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 14 stig og María Björnsdóttir var með 2 stig.

Berglind Gunnarsdóttir tók 12 fráköst fyrir Snæfell í leiknum þar af átta þeirra í sókn en hún var einnig með fimm stig og fimm stoðsendingar.  

Arielle Wideman skoraði 11 stig fyrir Breiðablik og hin unga Elín Sóley Hrafnkelsdóttir var með 10 stig og 9 fráköst.

Snæfellsliðið tók öll völd í byrjun leiks, komst í 21-8 eftir fyrsta leikhluta og var 21 stigi yfir í hálfleik, 44-23.

Snæfellskonur enduðu á því að vinna alla fjóra leikhlutana og vinna afar öruggan sigur á nýliðunum úr Kópavogi sem töpuðu þarna ellefta leiknum sínum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×