Innlent

Slökkvistarf tók þrjá tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkvistarf tók þrjá tíma í Hafnarfirði í kvöld þar sem eldur hafði komið upp í tróðarhaugi á athafnasvæði Furu á Völlunum. Tróðarhaugur er myndaður þegar úrgangi sem verður til þegar bílar eru kramdir er safnað saman. Tveir dælubílar og tankbíll voru sendir á vettvang þar sem mikill eldsmatur var á svæðinu.

Talið er að eldurinn hafi kviknað að sjálfu sér.

Slökkvistarf gekk vel og var komið í veg fyrir frekari útbreiðslu. Starfsmenn Furu komu á staðinn og voru með krabba sem þeir rifu Tróðarhauginn upp með og gátum við þá slökkt í,“ segir Sigurður Lárus Fossberg, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við fréttastofu.

„Þetta var tímafrekt en slökkvistarf gekk vel.“

Athafnasvæðið er lokað með öflugri girðingu. Þar sem ekki var talin mikil hætta á útbreiðslu var ákveðið að slökkviliðsmenn þvinguðu sér ekki leið inn og svæðið og var beðið eftir lyklum frá Furu. Slökkviliðið er nú með lykla að svæðinu ef þess þarf í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×