Innlent

Slökkvilið vanbúin sökum fjárskorts

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Fjöldi slökkviliða er vanbúinn vegna skorts á fjármagni og hafa sveitarfélög vanrækt skyldur sínar í gerð áætlana um brunavarnir, að mati forstjóra Mannvirkjastofnunar. Staðan í þessum málum sé grafalvarleg.

Brunavarnaáætlanir sveitarfélaga gera grein fyrir mönnun, skipulagi, tækjabúnaði og þjálfun slökkviliðsins og þarf samþykki sveitarstjórnar. Áætlunin gerir sveitarstjórnarmönnum grein fyrir stöðu viðbragðsmála í sveitarfélaginu og með áætluninni eru íbúar og atvinnulíf einnig upplýst um þessi mál. Einungis rúmur helmingur sveitarfélaga hefur lokið við gerð brunavarnaráætlunar.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, segir mikilvægt að gripið sé til ráðstafana.

„Allt of mörg sveitarfélög vanrækja skyldu sína að gera áætlun um brunavarnir og svo framvegis og mikill fjöldi þeirra er vanbúinn vegna skorts á fjármagni. Nú er það þannig að það varð hér hrun og maður verður að sýna því ákveðinn skilning að fjárhagserfiðleikar sveitarfélaga um þessar mundir eru miklir. En það eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í niðurskurði í fé til slökkviliða,” segir Björn.

Hann segir stöðuna afar misjafna hjá slökkviliðum á landinu, sem eru fjörutíu talsins. „Við sáum það þegar við forum yfir landið og erum með okkar lögbundna eftirlit með starfsemi slökkviliða að þá er það þannig að fjárfesting í búnaði, þjálfun, yfirferð reykköfunartækja og annað slíkt hefur minnkað og það er mikilvægt að innviðum eins og slökkviliðinu sé sinnt vel.”

Hann segir að um sé að ræða fjársvelti og að tímaspursmál sé hvenær það komi niður á rekstrinum.

„Það gefur auga leið að þegar menn skera svona niður í innviðunum, þessum mikilvægu innviðum eins og slökkviliðin eru, þá mun það koma fram fyrr eða síðar í rekstrinum og í starfi þeirra. Við getum ekki bent á ákveðna atburði hvað það varða heldur kemur þetta bara í ljós þegar við skoðum stöðu slökkviliðana um landið, “ segir Björn Karlsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×