Enski boltinn

Slaven Bilic harður: Dimitri Payet vill ekki spila og fær ekki að æfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitri Payet og Slaven Bilic.
Dimitri Payet og Slaven Bilic. Vísir/Samsettar myndir frá Getty
Dimitri Payet er án efa besti leikmaður West Ham en franski landsliðsmaðurinn hefur verið orðaður við önnur „stærri“ félög að undanförnu og það fer ekki vel í stjórann sem hefur sett hann í frystikistuna.

Sögusagnirnar eru eitthvað að trufla miðjumanninn og knattspyrnustjórinn Slaven Bilic gaf það hreinlega út í viðtalið við BBC í dag að hann ætlaði ekki að nota Payet á næstunni.

„Við höfum sagt að við viljum ekki selja okkar bestu leikmenn en Payet vill ekki spila fyrir okkur. Við ætlum samt ekki að selja hann,“ sagði Slaven Bilic.

Dimitri Payet kom til West Ham frá Marseille í júní 2015 og borgaði enska félagið 10.7 milljónir punda fyrir hann.

Eftir að hafa slegið í gegn hjá West Ham þá skrifaði Dimitri Payet undir nýjan samning í febrúar 2016 en sá samningur heldur honum hjá West Ham til ársins 2021.

„Ég býst við því að hann kom til baka og sýni sömu hollustu og skuldbindingu við félagið og það hefur sýnt honum,“ sagði Slaven Bilic.  

„Það kemur aldrei til greina að selja hann. Þetta snýst ekki um peninga heldur um það að við viljum halda okkar bestu leikmönnum. Slaven Bilic er viss um það að önnur félög hafa verið að pota í Payet og það sé að trufla hann.

„Þar til að hann breytir um hugarfar þá er hann út úr liðinu og fær ekki að æfa með okkur,“ sagði Bilic.

West Ham er í 13. sætinu í ensku úrvalsdeildinni og sjö stigum fyrir ofan fallsæti. Næsti leikur er á móti Crystal Palace á heimavelli á laugardaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×