Innlent

Skylt að afhenda lista yfir símtöl mannsins sem skotinn var í Hraunbæ

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Lögreglan fullyrðir að hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við manninn símleiðis og freista þess að fá hann til að gefa sig fram en árangurs.
Lögreglan fullyrðir að hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við manninn símleiðis og freista þess að fá hann til að gefa sig fram en árangurs. VÍSIR/PJETUR
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á að símafyrirtæki mannsins, sem skotinn var til bana af sérsveit lögreglunnar aðfararnótt 2. desember síðastliðinn, væri skylt að afhenda ríkissaksóknara lista yfir öll símtöl í og úr númeri hans umrædda nótt. Einnig hver af viðskiptavinum símafyrirtækisins.hefði verið notandi númersins á þeim tíma.  

Lögreglan fullyrðir að hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við manninn símleiðis og freista þess að fá hann til að gefa sig fram en árangurs. Hafi því ekki komið til þess að samningahópur Ríkislögreglustjórans hafi getað reynt að tala manninn til.







Rannsókn lögreglu á vettvangi.Vísir/Vilhelm
Rannsókn á að leiða í ljós hvort aðförin hafi verið réttlætanleg

Ríkissaksóknari hóf rannsókn á því sama dag og maðurinn lést hvort framin hefðu verið refsiverð brot í tengslum við störf lögreglunnar. Rannsóknin beinist að því að leiða í ljós hvort aðför lögreglu að manninum hafi verið réttlætanleg. Hvort fullt tilefni hafi verið til að ráðast til inngöngu að undangenginni beitingu gasvopna gegn manninum og hvort farið hafi verið að lögum.

Nauðsynlegt sé að leiða í ljós hvort reynt hafi verið til þrautar að fá manninn til að hlýða fyrirmælum lögreglu og leggja niður vopn áður en ráðist var inn í íbúð mannsins. Ríkissaksóknari hafi ekki upplýsingar frá öðrum en lögreglu um að reynt hafi verið að hringja í þá síma mannsins.

Frá rannsókn lögreglu.Vísir/Pjetur
Skaut á sérsveitarmann

Lögreglan var kölluð að blokk í Hraunbæ í Reykjavík umrædda nótt þar sem hávaði barst frá íbúð á annarri hæð og grunur var á að íbúi þar væri vopnaður og hljóðin sem heyrst hefðu væru skothvellir.

Tilraunir lögreglunnar til að ná sambandi við manninn báru ekki árangur og kallað var til lásasmiðs sem opnaði. Þegar sérsveitarmenn ætluðu inn í íbúðina skaut maðurinn einu skoti á einn sérsveitarmanninn. Mildi er að hann var útbúinn hlífðarskyldi sem skotið stoppaði á.

Í kjölfarið skapaðist umsátursástand á staðnum og lögreglan gerði ráðstafanir til að tryggja öryggi annarra íbúa í sama stigagangi og maðurinn bjó í.

Vísir/GVA
Fjölda gashylkja skotið í íbúðina

Það var svo um sex leytið um morguninn að yfirmenn lögreglunnar ákváðu að hefja árás á íbúð mannsins með því að skjóta þangað inn gassprengjum. Þær áttu að gera hann ófæran um að verja sig og eftir atvikum þvinga manninn til að gefast upp.

Þegar miklum fjölda gashylkja hafði verið skotið inn í íbúðina og lögreglan taldi að gasið væri farið að hafa áhrif á manninn og eftir atvikum geta haft áhrif á heilsu hans var ráðist til inngöngu í íbúðina. Þá var klukkan 6:40.

Þegar inn í íbúðina var komið tók maðurinn hins vegar á móti sérsveitarmönnunum með því að skjóta á þá með haglabyssu þannig að högl lentu í hjálmi eins þeirra. Sá svaraði skotunum með því að skjóta á manninn úr skammbyssu. Tvo skotanna hæfðu hann, annað í nára en hitt í brjóst og leiddu til þess að maðurinn lést af skotsárum sínum skömmu síðar.


Tengdar fréttir

Rannsaka uppruna skotvopnsins

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvernig Sævarr Rafn Jónasson komst yfir skotvopn.

Lögregla rannsakar íbúð byssumannsins

Íbúð byssumannsins við Hraunbæ er eins og eftir sprengingu. Blóðslóð liggur um stigaganginn og för eftir haglabyssuskot sjást á veggjum og hurð nágranna.

Lásasmiðir í hættu: Öryggi ekki bætt eftir atvik í Hraunbæ

Mál í Hraunbæ nú í desember, þegar lásasmiður opnaði dyr að íbúð manns sem skaut að lögreglu, hefur ekki orðið til þess að öryggisreglur hafi verið hertar. Lögreglan hefur endurtekið stefnt lásasmiðum í hættu þegar leitað hefur verið aðstoðar þeirra í erfiðum málum. Þetta segir lásasmiður sem fréttastofa ræddi við í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×