Innlent

Skuldarar heimtir úr helju

Drómi hættir allri umsýslu lána samkvæmt samkomulagi sem gengið var frá í gær. Einstaklingslán færast yfir í Arionbanka. Talsmaður Samstöðuhóps gegn Dróma fagnar þessari niðurstöðu og segir að skuldarar hafi verið heimtir úr helju.

Arion banki tekur yfir öll lán einstaklinga sem áður voru hjá Dróma samkvæmt samkomulagi sem gengið var frá í gær. Þá mun dótturfélag Seðlabankans taka yfir fyrirtækjalán. Afhending eigna samkvæmt samningunum mun eiga sér stað á næstu vikum.

Drómi tók við lánasafni SPRON og Frjálsa fjárfestingabankas í bankahruninu en skuldarar hafa gagnrýnt félagið harðlega meðal annars fyrir óeðlilega viðskiptahætti.

Sigurður Hr. Sigurðsson, talsmaður samstöðuhóps gegn Dróma, fagnar þessari niðurstöðu. „Við fögnum því að fólk sem var með sín mál hjá þrotabúinu Dróma getur núna átt viðskipti við venjulegan banka vegna þess að það voru einfaldlega ekki sömu úrræði í boði gagnvart þrotabúi. Fólk þurfti að ganga á veggi þar sem þrotabúið hafði vissulega bara þann eina tilgang að hámarka kröfur í búið,“ segir Sigurður.

Hann vonast til þess að þær fjölskyldur sem áður voru hjá Dróma fái eðlilega fyrirgreiðslu hjá Arionbanka.

„Ég bara með þá ósk til Arionbanka að hann sýni þessu fólki tillitssemi vegna þess að það hefur verið heimt úr helju,“ segir Sigurður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×