Innlent

Skólafrí barna valda streitu á mörgum heimilum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Grunnskólabörn eru rúma tuttugu daga á ári í fríi fyrir utan sumarfrí og lögbundin frí.
Grunnskólabörn eru rúma tuttugu daga á ári í fríi fyrir utan sumarfrí og lögbundin frí. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Ólafur Loftsson
 „Vetrarfrí eru ekki fyrir kennara. Ég er viss um að fjölmargir kennarar myndu vilja skoða það að breyta vetrarfríunum,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.

Á föstudag hefst þriggja daga vetrarfrí í grunnskólum Reykjavíkur. Ólafur segir skóla- og frístundasvið hafa tekið ákvörðun um miðlægt vetrarfrí í grunnskólum Reykjavíkur. Skólastjórnendur hafi ekkert um fríið að segja og hafi ekki val um hvort eða hvenær fríið er tekið.

„Það er lögbundið að börnin eigi að vera í skóla 170 til 180 daga á ári. Kennsludögum hefur ekki fækkað heldur lengja fríin skólaárið. Ef við slepptum vetrarfrídögum færu börnin fyrr í sumarfrí.“

Ólafur segir að vissulega komi fyrirspurnir frá foreldrum um frídaga á skólaárinu sem stundum valdi streitu á heimilinu. Ástæðan er að almennt geta foreldrar ekki tekið frí frá vinnu á þessum dögum.

„Vetrarfrí ganga vel í nágrannalöndunum því þar er hefð fyrir að fjölskyldan fari í frí saman. Hér á Íslandi fær maður stundum á tilfinninguna að þetta sé spurning um hver eigi heilsuhraustustu ömmuna upp á pössun,“ segir Ólafur.

Hrefna Sigurjónsdóttir
Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, tekur undir orð Ólafs og segir að þrátt fyrir að börnin hafi gott af því að fá frí frá náminu virðist íslenskt samfélag ekki vera búið undir vetrarfrí. 

„Auðvitað langar foreldra til að taka vetrarfrí með börnunum sínum og eiga dásamlegan tíma en því miður hafa ekki allir tök á því. Flestir foreldrar eru útivinnandi og verðmætir starfskraftar og mögulega ekki vel séð að þeir taki frí ef þeir eiga þá rétt á því. Skólakerfið og atvinnulífið tala ekki nógu vel saman. Ég myndi vilja sjá atvinnulífið þróast í takt við skólana og koma til móts við foreldra,“ segir Hrefna. 

Hrefna segir umræðuna um vetrarfrí og fjölda starfsdaga koma upp ár eftir ár. „Það er löngu tímabært að þetta vetrarleyfi þjóni tilgangi sínum, að það verði góður tími fyrir fjölskylduna. Við þurfum að horfa til Norðurlanda, þar sem það þykir sjálfsagt og eðlilegt að taka frí með börnunum, og sjá hvernig þetta er skipulagt.“

Á meðfylgjandi töflu eru frí­dagar grunnskólabarna teknir saman ásamt orlofsdögum foreldis. Þetta eru ekki lögbundnir frídagar eða svokallaðir rauðir dagar heldur frí á virkum dögum þegar ­foreldrar eiga almennt ekki frí frá vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×