Innlent

Skoðað hvort almenningi verði hleypt nær gosinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri Norðurlands eystra.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri Norðurlands eystra. Mynd/Þorgeir Baldurs.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra skoðar nú með almannavarndeild ríkislögreglustjóra hvort óhætt sé að leyfa almenningi að komast nær eldgosinu í Holuhrauni. Beðið er eftir nýju hættumati.

Rúmir fimm mánuðir eru nú liðnir frá því almannavarnir lýstu allt hálendið norðan Vatnajökuls sem bannsvæði og síðan hefur almenningi verið meinuð för þar um. Þótt verulega hafi dregið úr eldgosinu telst kraftur þess enn mikill og há gildi brennisteinsdíoxíðs mælast enn frá eldstöðinni.

Yngvi Ragnar Kristjánsson, oddviti Skútustaðahrepps.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Spurningar vakna hins vegar um hvort gefa eigi fleirum en vísindamönnum og fjölmiðlamönnum færi á að nálgast gosið. Oddviti Skútustaðahrepps, Yngvi Ragnar Kristjánsson, hefur varpað fram þeirri hugmynd hvort leyfa mætti takmarkaða umferð sérbúinna jeppa og vélsleða um leið sem liggur frá Mývatni og að útsýnisstað við svokallan Kattbeking. Hann er um tíu kílómetra frá gígnum, og utan hættusvæðis vegna flóðbylgju. 

Nýskipaður lögreglustjóri Norðurlands eystra, Halla Bergþóra Björnsdóttir, segir þetta í athugun og hún hafi nú þegar fundað með almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. 

„Verið er að vinna að nýju hættumati og í framhaldi af því verður metið hvort ástæða sé til breytinga á fyrri ákvörðun varðandi lokanir og hættusvæði,“ segir Halla Bergþóra í svari við fyrirspurn Stöðvar 2. 

Hún segir að tillaga oddvitans, eins og allar tillögur, verði skoðaðar með opnum huga en ákvarðanir verði allar byggðar á þeim grunni að öryggi almennings verði ekki stefnt í hættu.

Leiðin sem oddvitinn vill opna liggur frá Mývatni að útsýnisstað sunnan við Kattbeking, 10 km frá eldsstöðinni.Grafík/Hjalti Þór Þórsson.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×