Skoðun

Skipulag skiptir máli fyrir heilsuna

Halldóra Hreggviðsdóttir skrifar
Við eyðum flest mjög stórum hluta dagsins sitjandi, en rannsóknir sýna að bara kyrrsetan sem slík er óholl út af fyrir sig. Jafnvel þótt við fáum daglegan skammt af hreyfingu einu sinni á dag, þá er það ekki nóg. Það er þessi hversdagslega, jafna hreyfing yfir daginn, þessi venjulega ganga, sem skiptir svo miklu máli fyrir góða heilsu. Það er stóllinn sem er orðinn eitt það hættulegasta í okkar umhverfi!

Við getum því raunverulega eflt heilsu okkar á víðtækan hátt með því að búa í göngu- og hjólavænu umhverfi með gott aðgengi að almenningssamgöngum. Það hvernig skipulagi byggðar er fyrirkomið, hvort umhverfið býður upp á gott og öruggt aðgengi fyrir hversdagslega hreyfingu, hefur þannig raunveruleg áhrif á lífsstíl okkar og heilsu.

Bæir og borgir úti um allan heim hafa verið að átta sig á mikilvægi þessa fyrir líf og líðan íbúa sinna og leggja æ meiri áherslu á að skipuleggja gott umhverfi fyrir göngur, hjól og notkun á strætó – sem eru jú um leið vistvænir ferðamátar. Sem dæmi þá nýta íbúar í Þrándheimi mun frekar þessa vistvænu ferðamáta en við Reykvíkingar, (43% á móti 23% í Reykjavík) þrátt fyrir að við séum á svipaðri breiddargráðu, en Þrándheimur hefur lyft grettistaki síðasta áratuginn í þessum málum.

Fyrst þau geta – þá getum við!

En til að bæta heilsu okkar þá þarf tvennt til. Umhverfi sem býður upp á gott og öruggt aðgengi fyrir hversdagslega hreyfingu og við sjálf þurfum að vera opin fyrir þeim tækifærum, að nýta hvert tækifæri sem gefst til að hreyfa okkur og taka á þeirri mýtu að veðrið hér sé vont. Er þetta ekki spurning um að klæða sig eftir veðri?

Gott dæmi um áhrif hreyfingar á heilsu eru samgöngusamningar sem ÁTVR gerði við starfsfólk sitt. Þeir hafa dregið úr fjarvistum um 2% og með því lækkað rekstrarkostnað um u.þ.b. 60 m.kr. á ári.

Bætt heilsa snýst líka um samfélagið og peninga, færri tapaðar vinnustundir og minni kostnað í heilbrigðiskerfinu, en af slíku er stór ávinningur. Þetta sýnir okkur enn og aftur mikilvægi skipulagsmála og áhrif þeirra á heilsu okkar og líðan – andlega og líkamlega.




Skoðun

Sjá meira


×